150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

tekjuskattur.

27. mál
[23:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um jákvæða hvata til að fá fyrirtæki til að styrkja kolefnisbindingu, hið besta mál. En með þeirri breytingu sem verður á málinu í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar opnast tækifæri til að taka á arfi fortíðar, sem er í 2. tölulið 31. gr. laga um tekjuskatt, sem varð til þess að ég lagði fram breytingartillögu við tillögu nefndarinnar þess efnis að orðið „stjórnmálaflokka“ falli brott úr greininni.

Breytingartillaga sama efnis var reyndar flutt hér árið 1993 af fulltrúum Kvennalistans á þingi þegar þessi viðbót var sett inn í lög um tekjuskatt. Þá var í samkomulagi flokka á þingi ákveðið að frumvarp frá ráðherra, sem heimilaði lækkun á tekjuskattsstofni fyrirtækja vegna gjafa til kirkjufélaga, líknarstarfsemi, menningarmála og vísindastarfa, að stjórnmálaflokkum væri bætt þar inn í.

Umhverfi stjórnmálaflokka og fjármögnun þeirra var allt öðruvísi árið 1993 en það er í dag. Væntanlega hefur þetta verið mjög hvetjandi fyrir fyrirtækin á sínum tíma þar sem gagnsæi var engan veginn það sem við eigum að venjast í dag. Tekjuskattur lögaðila var talsvert hærri en hann er í dag og ekkert hámark var á framlögum til stjórnmálaflokka. Mjög mörg skref hafa verið tekin í rétta átt varðandi þessi atriði til að draga úr hættunni á hagsmunaárekstrum hjá stjórnmálasamtökum en enn hangir þessi arfleifð inni.

Svo við setjum þetta í samhengi þá er þetta frá ríkinu séð, og frá stjórnmálaflokkunum líka, engin gríðarleg fjárhæð. Stjórnmálaflokkar, þeir átta sem sitja á þingi núna, höfðu samanlagt rúman milljarð í tekjur á árinu 2018. Þar af komu u.þ.b. 732 millj. kr. í gegnum bein ríkisframlög en framlög lögaðila voru ekki nema 47 milljónir. Ef hvert eitt og einasta fyrirtæki hefði fullnýtt þá heimild sem er í lögum um tekjuskatt til að lækka skattstofninn með þessum framlögum værum við að tala um á að giska 10 millj. kr. mótframlag frá ríkinu til að niðurgreiða þessi framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna. Hér erum við því ekki að tala um neinar þær stóru tölur sem miklu skipta í ríkisrekstrinum, en þessi tiltekt í lagasafninu tel ég að sé tímabær og í anda þess sem gert hefur verið varðandi fjármögnun stjórnmálahreyfinga á síðustu árum. Ég held að við ættum að nýta tækifærið, fyrst þetta ákvæði tekjuskattslaganna er opið hér og nú, og taka hér eina stutta tiltekt.