139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir að hafa tekið mjög málefnalega þátt í umræðunni. Það sem mig langar til að hnýta samt í er þetta ótrúlega fals sem felst í því að birta hér tölur og tala um að við séum í neðstu sætum eins og hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar gerðu. Það er sérstaklega tekið fram í þessari úttekt að það verði að gera ráð fyrir því að lönd eins og Ísland eru með lífeyrissjóðakerfi fyrir utan ríkissjóð. Þegar þú gerir ráð fyrir því, hæstv. fjármálaráðherra, er það þannig að við erum næstir fyrir ofan Svíþjóð, næstir á undan Ungverjalandi með skattfleyg og því getur enginn mótmælt, alveg sama þótt þeir hrópi: Hrun, hrun, hrun. Við erum sem sagt með sjötta stærsta skattfleyginn innan OECD.

Til að sýna hvernig þetta skattkerfi virkar má nefna að nú var verið að skrifa undir kjarasamninga og láglaunafólk fékk 50 þús. kr. eingreiðslu. Hvar skyldi hún lenda? Jú, fyrirtækin þurfa að borga 54 þús. fyrir þessa 50 þús. kr. eingreiðslu. Launþegarnir fá 30 þús. kr. og hæstv. fjármálaráðherra fær 24 þús. kr. af því inn í ríkissjóð. Þetta er hið góða skattkerfi okkar í hnotskurn.

Ég geld varhuga við því að (Forseti hringir.) bera hér á borð tölur sem eru ósamanburðarhæfar og líta fram hjá sérstökum viðvörunum OECD þegar fjallað er um skattfleyga.