139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, að ýmislegt væri bjart fram undan ef ekki væri þessi ríkisstjórn. Hann sagði að umhverfi sjávarútvegsins hefði sjaldan verið eins bjart. (Gripið fram í.) Ég verð að vísa til þess að hér í morgun var dreift tveimur frumvörpum sem gera umhverfi sjávarútvegsins ansi dapurt og dökkt — legg ég nú til að dregið verði frá hérna þannig að maður sjái nú eitthvert ljós þó að ekki sé annað. Þar er tekið burt framsalið sem auðvelt er að sýna fram á að er arðsemin í kerfinu; ekkert framsal, engin arðsemi. Það er stórhættulegt fyrir greinina í sjálfu sér og þjóðfélagið í heild sinni, sérstaklega fyrir velferðarkerfið sem við ræðum öðru hverju og byggir náttúrlega á atvinnulífinu.

Svo er lagt fram bann við veðsetningu í atvinnugreininni. Ég get ekki séð hvernig nýsköpun í sjávarútvegi getur átt sér stað ef menn fá ekki lánað fyrir skelinni, netstubb eða hverju því sem þeir kaupa, ef þeir þurfa að staðgreiða allt úr eigin vasa. Ég held að nýliðun í sjávarútvegi að þessu samþykktu muni bara verða auðmenn sem geta lagt fram og staðgreitt net og bát og allt slíkt og tekið áhættuna.

Það er sitthvað fleira í þessu frumvarpi um stjórn fiskveiða sem mér finnst ekkert nein skemmtilesning. Ég verð að mótmæla því að umhverfi sjávarútvegsins hafi sjaldan verið eins bjart.