154. löggjafarþing — 132. fundur,  23. júní 2024.

þingfrestun.

[00:08]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson.

Ég vil fyrir hönd Alþingis bjóða forseta Íslands velkominn í Alþingishúsið. Hann er hér í síðasta sinn í embættiserindum og fylgir fordæmi margra forvera sinna sem kvöddu Alþingi í lok forsetatíðar sinnar með því að ávarpa þingheim og lesa upp forsetabréf um þinglausnir eða frestun á fundum Alþingis. Samstarf Alþingis og forseta Íslands hefur verið með miklum ágætum og því er vel við hæfi að forseti Íslands sæki þingið heim við þessi tímamót.

Forseti Íslands og hv. alþingismenn. Hver forseti Íslands hefur sett svip sinn á embættið og svo er einnig um herra Guðna Th. Jóhannesson. Hann var fyrir forsetatíð sína landsmönnum að góðu kunnur sem mikilvirkur fræðimaður en hefur staðið frammi fyrir þjóð sinni í gerbreyttu hlutverki í embætti forseta. Það hefur hann gert með miklum sóma og hefur fyrir það notið velvildar og stuðnings fólksins í landinu.

Við þau þáttaskil sem nú eru að verða vil ég ítreka þakkir til herra Guðna Th. Jóhannessonar fyrir farsæl og vel unnin störf. Bestu kveðjur færum við einnig frú Elizu Reid. Þau hjónin hafa verið verðugir fulltrúar Íslands, bæði hér á landi og erlendis. Ég færi þeim báðum hugheilar kveðjur okkar alþingismanna um leið og ég óska þeim gæfu og gengis á komandi tíðum.

Ég vil biðja þingheim um að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. —[Þingmenn risu úr sætum.]