131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[14:59]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni eins og hann lýsti þeim. Ég vil bara í andsvari mínu vekja athygli á því að öll uppbygging og sókn íslenskra aðila inn á flugrekstrarsviðið vítt og breitt í veröldinni hefur getað þróast án þess að þessi heimild væri fyrir í lögum. Ég geri mér vel grein fyrir því að til þess kunni að koma. Ég hefði hins vegar talið miklu nær að við fylgdum þar alþjóðlegum kröfum en tækjum ekki upp þetta frumkvæði að því er varðar íslensk loftför ein og sér. Ég sé ekki, eins og dæmin sanna með geysilega uppbyggingu okkar varðandi eign á flugvélum og í flugvélarekstri almennt í veröldinni, að þetta ákvæði sem nú er verið að lögleiða hafi verið okkur til trafala hingað til.