138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:48]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert svar að segja að kragamálin séu í biðstöðu, kragamálin verða aldrei í biðstöðu. Heilbrigðisstofnanir verða aldrei í biðstöðu, það er bara fullkomlega ómögulegt. Það er búið að taka ýmsa hluti til skoðunar, þó að menn hafi ekkert verið að segja frá því, á hinum svokölluðu kragaspítölum. Til dæmis er búið að draga gríðarlega úr þjónustu á St. Jósefsspítala, menn hafa hins vegar ekkert verið að kynna það neitt sérstaklega.

Forstjóri Landspítalans bað um að fá að hitta nefndina til að fara yfir stefnumótun Landspítalans sem er unnin á Landspítalanum. Það verður að segjast eins og er að eftir að fagleg stjórn kom á þann spítala hefur verið unnið afskaplega vel þar. Ég vek athygli á því að hv. þingmenn Vinstri grænna voru algjörlega á móti því að fá þar faglega stjórn og öskruðu hér á okkur sem beittum okkur fyrir því á sínum tíma. Og lyfjamálin, við skulum hafa það á hreinu að ýmislegt hefur verið kynnt hvað þau varðar.

Menn hafa sérstaklega verið að kalla eftir svörum varðandi sjúkratryggingarnar. Það er ekki hægt að ganga frá því þannig að segja að kragaverkefnið sé á einhverju stoppi, það er ekkert stopp í heilbrigðismálunum. Menn þurfa að ná markmiðum fjárlaga næstu ára. Ef menn vilja ekki fara í kragaverkefnið, sem núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra lét reikna út að sparaði tvo milljarða á ári án þess að þjónusta yrði skert, þá er það bara pólitísk ákvörðun. En menn þurfa þá að upplýsa hvað á að gera í staðinn. Það hefur ekki verið gert, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að vinna þetta handahófskennt, við verðum að taka umræðu um þetta og það hefur ekki verið gert á vettvangi nefndarinnar. Við höfum ekki verið upplýst um framkvæmd fjárlaga eins og beðið var um, við bíðum enn eftir því.