138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í dag ræðum við fjárhagsstöðu heimilanna en Hagstofan gaf einmitt út Hagtíðindi fyrir nokkrum dögum með sama heiti. Þar er gerður samanburður á árunum 2004 og 2009 og kemur fram að vanskil íslenskra heimila voru svipuð þessi ár, þó að þau hafi jafnvel verið minni í húsnæðislánum árið 2009. Þá vil ég benda á, herra forseti, að þetta var áður en almennar og sértækar aðgerðir ríkisvaldsins voru farnar að hafa veruleg áhrif á greiðslubyrði lána.

Ég ætla þó ekki að draga dul á það að með efnahagshruninu, banka- og gjaldeyrishruninu, varð mikið eignatjón á Íslandi og lífskjaraskerðing. Eftir þetta hrun hefði verið mjög freistandi að fara í almennar aðgerðir og færa niður höfuðstól lána heimilanna. Ástæðuna fyrir því að það var ekki gert er m.a. að finna í nýlegu svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurninni þar sem fram kemur að það mundi kosta Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna um 125 milljarða að færa lánin niður um 20% og tvo stærstu lífeyrissjóðina 20 milljarða. Þarna vantar náttúrlega inn alla hina lífeyrissjóðina í landinu. Þessi kostnaður er að sjálfsögðu kostnaður fyrir íslensk heimili í formi hærri skatta, minni opinberrar þjónustu og lægri lífeyris. Þess í stað ákvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og síðar Samfylkingar og Vinstri grænna að leggja höfuðáherslu á að fólk héldi heimilum sínum og að laga greiðslubyrði þess eða greiðslugetu.

Í nóvember síðastliðnum tóku gildi lög um sértæka skuldaaðlögun sem þverpólitísk samstaða var um og við bundum miklar vonir við en tregðan til að beita þessu úrræði hefur valdið miklum vonbrigðum og fréttin á Pressunni sem hér hefur verið vitnað til sýnir fjölskyldu sem fékk tilboð sem jók enn á vanmátt þeirra og vonleysi. Það er þess vegna sem við erum nú með róttækum aðgerðum að setja á fót embætti umboðsmanns skuldara sem á að gæta hagsmuna skuldugra heimila í hvívetna. Við erum að afnema þá skyldu að skuldarar séu með lögheimili á Íslandi til að tryggja að fólk sem hefur flúið land treysti sér til að flytja aftur heim. Við erum með úrræði fyrir þau þúsund til fimmtán hundruð heimili sem eiga tvær eignir svo þau geti losað sig við aðra eignina. Við erum að koma á frjálsum samningum sem umboðsmaður skuldara ber ábyrgð á, sem ná bæði til samningskrafna og veðkrafna. Auk þess erum við að teygja úrræðið þannig að það nái til þeirra sem eru með rekstur samofinn heimilisrekstri. Félags- og tryggingamálanefnd er nú í samstilltu, róttæku átaki um að bæta (Forseti hringir.) stöðu heimilanna og gefa þeim vopn (Forseti hringir.) til að berjast við lánardrottna.