138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefði verið hægur leikur fyrir hv. þingmann að fletta upp einhvers staðar í netheimum hvernig þetta mál er í pottinn búið. Ég gerði grein fyrir því á síðasta ári að við mundum endurgreiða þessa styrki á sjö árum vaxtalaust og án verðbóta. Fyrsta greiðslan var greidd á síðasta ári og sú næsta verður greidd núna í sumar. Svo verður þetta greitt til baka á þessum sjö árum. Það er rangt þegar hv. þingmaður segir að um sé að ræða lán. Það er engu slíku til að dreifa.

Því hefur oft verið haldið fram um Sjálfstæðisflokkinn að hann vilji ekki taka þátt í samstarfi með öðrum flokkum um að auka gegnsæi í þessum málaflokki, þ.e. í fjárhagslegum samskiptum stjórnmálaflokka, fyrirtækja og einstaklinga í landinu. Því var haldið fram um Sjálfstæðisflokkinn að hann mundi aldrei vilja standa að lagasetningu um þessi mál. Það reyndist rangt. Við tókum þátt í því með öðrum flokkum á árinu 2006. Því var haldið fram um Sjálfstæðisflokkinn að hann mundi ekki vilja upplýsa um fjárhagsleg málefni sín fyrir gildistöku laganna. Það var rangt. Við höfum opnað bókhald flokksins aftur til ársins 2002. Því var haldið fram um Sjálfstæðisflokkinn að hann vildi ekki setja reglur sem vörðuðu fjárhagsleg tengsl einstakra þingmanna. Við tókum þátt í því í samstarfi við aðra flokka að setja reglur um þau málefni á þinginu og höfum tekið virkan þátt í því eins og allir aðrir þingmenn annarra flokka. Ég tók þátt í því sem nýr formaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári að taka ákvörðun um endurgreiðslur þessara styrkja vegna þess að þeir eru, eins og hv þingmaður vék að, úr öllum takti við þau samskipti stjórnmálaflokks við stuðningsmenn sína sem ég vil sjá. Þess vegna var þessi ákvörðun fyrir mig tiltölulega einföld.

Svörin við þessum spurningum hafa öll verið gefin fyrir löngu. Þau eru opinber og þau hefði hv. þingmaður getað fundið ef hann hefði borið sig eftir þeim.