138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum kaus hún að kalla sig norræna velferðarstjórn. Hennar fyrsta verk var að lofa heimilunum í landinu að um þau yrði slegin skjaldborg og skjaldborgin var vissulega reist. En skjaldborg ríkisstjórnarinnar er ekki heimilunum til varnar eins og almenningur hélt. Skjaldborgin sem hin svokallaða norræna velferðarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna reisti um heimilin hefur aðeins eitt hlutverk, að halda þeim í herkví banka og fjármagnseigenda og tryggja að hægt sé að blóðmjólka alþýðuna þar til henni þverr allur máttur. Íslensk heimili eru bundin á skuldaklafa og ráðherrar hinnar svokölluðu velferðarstjórnar ganga hver undir annars hönd til að tryggja að þau losni ekki þaðan.

Nú eru liðnir sextán mánuðir frá því framsóknarmenn lögðu fram heilsteyptar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum með áherslu á aðgerðir til stuðnings heimilum og fyrirtækjum. Síðan þá höfum við kynnt frekari tillögur um aðgerðir til hjálpar heimilunum. Við lögðum fram vel rökstuddar tillögur um almennar niðurfærslur lána sem hægur vandi hefði verið að hrinda í framkvæmd á meðan ríkið fór með stjórn allra stærstu banka og fjármálastofnana landsins. Með því hefði verið hægt að skipta að hluta til tjóni af hruninu milli almennings og fjármagnseigenda. En, nei, ríkisstjórnin kaus að varpa öllum byrðunum á íslenskan almenning og aðstoðar nú þá huldumenn sem eiga bankana við að blóðmjólka íslensk heimili. Það er öll skjaldborgin.

Við lögðum fram tillögur um þak á verðtryggingu og afnám hennar til lengri tíma. Með því væri hægt að skipta áhættu af verðbólgu milli lántakenda og lánveitenda og tryggja að þeir hefðu gagnkvæman hag af því að halda verðbólgunni niðri. En, nei, ríkisstjórnin þráast við. Lántakendur skulu sitja uppi með alla áhættuna og borga upp í topp kostnað við verðbólguhvetjandi útrás fjármagnseigenda. Það er öll skjaldborgin.

Virðulegi forseti. Það er hneyksli að sú ríkisstjórn sem nú situr skuli kenna sig við norræna velferð. Sú ríkisstjórn sem nú situr virðist hafa það eina hlutverk að tryggja að allur herkostnaður útrásarinnar og efnahagshrunsins sem hér varð verði greiddur af íslenskum almenningi. Þetta er ríkisstjórn alþjóðlegs auðmagns, ekki norrænnar velferðar.