138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[13:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér sýnist mér vera komið enn eitt málið til lokaafgreiðslu Alþingis sem brýtur gegn bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Það er mjög mikill ábyrgðarhluti að þetta sé komið svona langt án þess að þessu hafi verið sinnt, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti hér svo réttilega á og reifaði að hér er einungis verið að uppfylla stöðugleikasáttmálann svokallaða sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu við ríkisstjórnina. Þetta mál er greinilega ekki nógu vel unnið og er augljóst, má segja, ef einhver færi með þetta áfram fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að þar yrði íslenska ríkið dæmt til að borga skaðabætur. Ég segi nei við þessu frumvarpi.