138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:20]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég kem í seinni ræðu mína við 1. umr. um frumvarpið sem við ræðum. Mér finnst það sýna ákveðna hugsanavillu í lögum um tekjuskatt að leiðrétting á skuldum séu sérstakar tekjur, séu meðhöndlaðar sem tekjur, þegar við vitum öll að alger forsendubrestur varð í hruninu. Við þurfum einhvern tíma í framtíðinni, það verður ekki tími til þess hér, að taka höndum saman um að leiðrétta þessa hugsanavillu sem er greinilega innbyggð í lög um tekjuskatt. Þess vegna stöndum við hér nú og reynum að leiðrétta þessa hugsanavillu með því að fjalla um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra sem nauðsynlegt er að fái framgang. Við erum öll sammála um að við þurfum að fara í gegnum það með hvaða hætti þarf að breyta því.

Við höfum það sameiginlega verkefni að tryggja það að fyrirtækin og heimilin í landinu sjái einhvern tilgang í því að berjast áfram við þá erfiðleika sem steðjað hafa að þeim. Í þessu sambandi er t.d. rétt að benda á að vaxtagjöld, sem ekki eru frádráttarbær á Íslandi frá vaxtatekjum, eru það t.d. í Svíþjóð. Að minnsta kosti stór hluti fylgismanna ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög duglegur að vitna til hinnar norrænu velferðar og norræna skattkerfisins og þá ekki síst til Svíþjóðar. Ef það væri svo að vaxtagjöld og höfuðstólshækkanir, ég tala ekki um þegar verður alger forsendubrestur eins og varð á hausti 2008 — ef við værum með svipaðar skattareglur og í Svíþjóð þá hygg ég að við þyrftum ekki að ræða þetta. Það frumvarp sem hér liggur fyrir frá hæstv. fjármálaráðherra væri því óþarft. Það sem við þurfum að gera hér, og það er bara verkefni okkar áður en við förum í sumarfrí, er að reyna að leiðrétta þessa hugsanavillu eins mikið og við getum. Við gerum það auðvitað með þeim hætti, eins og ég vék að hér áðan, að útbúa frumvarpið, eða lögin sem verða afgreidd, með þeim hætti að leiðrétting á skuldum fyrirtækja og einstaklinga skuli ekki í skilningi tekjuskattslaganna meðhöndla sem tekjur og þar af leiðandi eigi ekki að skattleggja þær með einum eða neinum hætti og því þurfi ekki að vera með einhverjar ívilnanir eða eitthvað slíkt eins og gert er ráð fyrir með þessum hætti.

Við getum líka farið hina leiðina og leyft einstaklingum að gjaldfæra hækkun lána á móti niðurfellingunni, á móti leiðréttingu lána. Þá sýnist mér að niðurstaðan sé svipuð, við getum t.d. miðað það við 1. janúar 2008 en það er, hygg ég, eðlileg dagsetning í þessu efni. Ég vil minna á að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi vegna þess að þetta skiptir allt þjóðfélagið miklu máli hvernig við göngum frá þessu og við förum að sjá einstaklinga og heimilin í landinu fá aftur bjartsýni á framtíðina.