145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

framlög til lífeyrisgreiðslna í fjármálaáætlun.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Þetta eru sannarlega mikilvæg mál til þess að ræða hér í þinginu.

Fyrst varðandi bréfið. Já, ég held að við höfum staðið afskaplega vel við þau loforð sem þar eru tíunduð. Menn hafa staldrað sérstaklega við það að við ætluðum að afnema tekjutengingar vegna lífeyrisgreiðslna, en það var einmitt fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að afnema þá svívirðu sem tekjutenging grunnlífeyrisins var, það gerðum við á okkar fyrstu dögum. Að öðru leyti tel ég að allt það sem kemur fram í bréfinu standist vel skoðun þegar kemur að samanburði við þær aðgerðir sem við höfum beitt okkur fyrir.

Varðandi langtímaáætlunina þá langar mig að segja tvennt, annars vegar þetta: Þegar við vorum að ræða um stöðugleikaskatt, stöðugleikaframlög, þá var í þessum þingsal oft talað um að það mætti ekki gerast að sú ríkisstjórn sem nú situr mundi nota stöðugleikaframlögin eða stöðugleikaskattinn til þess að hífa sig upp í aðdraganda kosninga og eyða þeim í kosningaloforð. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir. Hér stend ég með nýsamþykkta rikisfjármálaáætlun og ligg undir ámæli frá þessum sömu þingmönnum sem sögðu að við mættum alls ekki eyða þessu öllu í einhver ný útgjaldatilefni og ligg undir ámæli fyrir að eyða ekki nægilega miklum peningum í hin ýmsu kerfi ríkisins. Menn eru búnir að tala sig sem sagt í fullkominn hring.

Í öðru lagi vil ég segja að þegar hv. núverandi félagsmálaráðherra var hér óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu þá sat hún í formennsku fyrir verðtryggingarnefnd. Meðal meginniðurstaðna þeirrar nefndar var að við yrðum að vinna til framtíðar á grundvelli svokallaðra rammafjárlaga, sem er nákvæmlega sama hugmynd og langtímaáætlanir í ríkisfjármálum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar við skoðum sviðið, við skoðum af sanngirni það sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að í þessum málum sem (Forseti hringir.) öðrum, þá höfum við nýtt það svigrúm sem skapast hefur í ríkisfjármálunum á undanförnum árum afskaplega vel. Við höfum aukið svigrúmið með sérstökum ráðstöfunum,(Forseti hringir.) t.d. með því að skattleggja slitabúin, hlíft þannig fjölskyldunum í landinu, vinnandi fólki, (Forseti hringir.) og við höfum ráðstafað svigrúminu í velferðarmál.