139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að við áttum virkilega góðan fund með forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja og aðila á Austurlandi rétt áðan.

Mig langar að nefna eitt sem mér fannst sláandi, og ég er viss um að hv. þingmaður er sammála mér um það, og það er að ef þetta frumvarp verður að veruleika sjá menn hugsanlega þann kost vænstan til framtíðar litið að loka fiskvinnslunum á Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Ég get ekki ímyndað mér að það sé tilgangurinn með frumvarpinu.

Strandveiðar eru ótrúlega vinsælar og gaman að geta tekið þátt í þeim. Menn verða samt að horfast í augu við það að verið er að færa störfin frá einum aðila til annars, frá einni fiskverkakonu til einhvers annars og aflinn er ekki einu sinni unninn í kjördæminu eða á svæðinu.

Ég nefndi norsk-íslensku síldina. Ég er reyndar þeirra skoðunar að þegar henni hafi verið skipt á sínum tíma hafi það verið gert á ósanngjarnan hátt. Það er rétt að einn aðili benti á það, en ef menn ætla sér að hafa potta tel ég að allir eigi að sætta sig við sömu reglur. Og ég beini því til nefndarinnar að þar verði rætt af yfirvegun og skynsemi þannig að sátt náist um þetta eins og annað í (Forseti hringir.) því sem verið er að breyta.