139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:51]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sandsíli hefur brugðist í nokkur ár og skapað vanda í þeim efnum sem við höfum aðeins vikið að utan máls. En aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er núna rekin á því stigi að um er að ræða trójuhest. Ríkisstjórnin felur sig inni í hestinum sem stríðsmenn Evrópusambandsins og Vinstri grænir líka, ekki bara Samfylkingin. Þeir ætla að lauma sér inn í íslenskt samfélag með því að hafa nógu erfiðar aðstæður, nógu mikið niðurbrot og lítinn metnað og rugla þar öllu þannig að auðveldara verði fyrir Evrópusambandið að kokgleypa litla Ísland. En þeim skal ekki verða kápan úr því klæðinu, frekar stöndum við sem verjum Ísland eftir ein á jöklinum en láta það ganga yfir.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að vara við svo mörgu í því frumvarpi sem hér er um að ræða því að þar er lögð gildra inn í framtíðina. Það opnar margar dyr, ekki til að skapa sátt um málið, ekki nýtingu, ekki hagkvæmni heldur til að rugla menn í ríminu. Við Íslendingar þurfum ekki á því að halda að ruglast meira í ríminu er lýtur að þjóðhagsmálum og þjóðhagfræðilegum málum okkar. Við þurfum að vinna eins og menn, ganga til verka og skila árangri en ekki með því bögglauppboði sem nú er uppi á borði hjá ríkisstjórninni og minnir miklu frekar á púsluspil hannað af ríkisstjórninni. Það er að vísu enginn litur í því, allir fletirnir eru litlausir og þeir passar heldur ekki saman. Það er ekki gott púsluspil. Það er ekki gott að eyða tímanum í að vinna úr slíku.