137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má taka undir það að vissulega standa væntingar til þess að stýrivaxtalækkunarferlið gangi hraðar fyrir sig en það gerir í dag. Fyrir því eru að sjálfsögðu ákveðnar ástæður og það er nauðsynlegt að hafa í huga að peningastefnunefndin getur ekki lækkað vexti á kostnað gengisstöðugleikans. Veiking krónunnar og meðfylgjandi verðbólga sem því fylgir er miklu skeinuhættari bæði fyrirtækjum og heimilunum í samfélaginu en vaxtastigið eitt og sér. Það er mikilvægt að gæta varfærni við vaxtalækkunarferlið þegar gengi krónunnar hefur ekki styrkst eins og vonir manna stóðu til fyrir nokkrum vikum þegar boðað var að ferlið mundi líkast til ganga hraðar fyrir sig. Þá er mikilvægt að hafa í huga að við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi ráða stýrivextirnir ekki einir vaxtastiginu í landinu, bankarnir búa vel að lausafé og þurfa ekki að nýta Seðlabankann til lausafjárstýringar. Þess í stað ráða innlánsvextir fjármálastofnana hjá Seðlabankanum í raun og veru vaxtastiginu og þeir voru lækkaðir í 9,5% í júní og eru óbreyttir í dag. Mikil lækkun innlánsvaxta í júní úr 12,5% í 9,5% lækka allan fjármagnskostnað í hagkerfinu umtalsvert þannig að það verður að hafa í huga líka þegar þessi staða er rædd. Líkast til bíður Seðlabankinn frekari aðgerða í ríkisfjármálum, að tillögur verði lagðar fram eins og boðað hefur verið af hæstv. fjármálaráðherra í þessum mánuði og þær gangi í gegnum Alþingi þannig að þær liggi fyrir áður en stærri og myndarlegri skref eru stigin til vaxtalækkunar sem allir bíða að sjálfsögðu eftir. Þau skref má ekki og á ekki að stíga á kostnað gengisstöðugleikans, hann skiptir gríðarlega miklu máli. Gengið hefur verið mun veikara en efni stóðu til og menn væntu. Þess vegna er þessi varfærnislega ákvörðun Seðlabankans skiljanleg í ljósi aðstæðna.