152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjáraukalög og vil ég byrja á að ræða þau gleðitíðindi sem eru komin í fjáraukann, þessar 53.100 kr. sem verða greiddar til öryrkja. Við erum einmitt að reyna að koma því máli frá okkur þannig að sómi sé að og það verði til þess að hægt verði að borga þetta út vonandi á morgun en í síðasta lagi á Þorláksmessu, og ekki veitir af. Þeir sem fá þetta og þurfa mest á því að halda hafa beðið og beðið eftir réttlætinu. Þessi hópur beið eftir réttlætinu í fjögur ár, alla tíð síðustu ríkisstjórnar, og fékk smá réttlæti vegna Covid, 50.000 kr. eingreiðslu, og fær núna 53.100 kr. Hækkunin þarna á milli samsvarar nokkurn veginn þeirri hækkun sem á að verða um áramótin.

Það sem er kannski svolítið skrýtið með þá hækkun, sem kemur til framkvæmda um áramótin, er sú staðreynd að verðbólgan er komin á fullt skrið. Við sjáum bara að verðbólgan er nú þegar komin í 5,1%, það eru nýjustu tölurnar, og hækkaði um 0,45% milli mánaða. Það stingur því svolítið í stúf að án húsnæðisliðar er verðbólgan 3,3%. Það segir okkur að húsnæðisliðurinn skiptir gígantísku máli í verðbólguþróun. Það er skrýtið að húsnæðisliðurinn skuli hækka svona mikið og að ekki sé tekið á því á einn eða neinn hátt. Eins og komið hefur fram í umræðunni er húsnæðisverð í hæstu hæðum sem og húsnæðisskortur og auðvitað tekur ríkisstjórnin ekki heldur á því vandamáli.

Eitt af því sem er skrýtið í þessum fjárauka, sérstaklega í nefndarálitinu sem fylgir honum, er undarleg uppsetning á tölunum yfir útgjöld vegna Covid-19. Það kemur skýrt fram að við erum að auka útgjöld vegna Covid-19 um 23.611 millj. kr. Ef við setjum þá tölu í samhengi við eitthvað þá er þetta sennilega einn þriðji af háskólasjúkrahúsinu. Þetta eru gífurlegir fjármunir og þess vegna er ofboðslega skrýtið að settur skuli vera í einn pakka, í nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar, kostnaður vegna framkvæmda við bólusetningu og skimun á landamærum. Annar rekstrarkostnaður Landspítalans er upp á rétt rúma 5 milljarða og þetta er ekkert sundurliðað. Er ekkert undarlegt að á sama tíma og við erum berjast með kjafti og klóm fyrir 53.000 kr., sem náðust loksins í gegn — við höfum líka bent á að ekki hefur náðst í gegn að hækka frítekjumark öryrkja í sömu upphæð og fyrir eldri borgara, í 200.000 kr. — á sama tíma og alltaf er verið að segja að það séu ekki til peningar fyrir þessu, að við séum að borga milljónir, jafnvel hundruð milljóna, fyrir fólk og til þess að gera hvað? Fara á djammið, fara í leikhús? Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að það sé ósköp eðlilegt í þessu ástandi, þegar ekki eru til peningar fyrir fólk sem þarf að eiga fyrir mat og lyfjum, að þeir sem ætla að skemmta sér borgi fyrir hraðpróf. Það finnst mér sjálfsagður hlutur. Ég efast ekki um það eina mínútu að þeir sem gera þetta hafa hvort sem er efni á því og myndu algjörlega vera sammála því að það þurfi ekkert að borga hraðprófin fyrir stærsta hópinn úti í þjóðfélaginu. Og að þetta skuli heldur ekki vera sundurliðað svo hægt sé að átt sig nákvæmlega á kostnaðinum.

Það sem við höfum heldur ekki athugað almennilega er hver kostnaðurinn verður áfram. Við getum auðvitað ekki skráð inn í framtíðina hvernig þróunin verður á þessum faraldri en við sjáum að það er alltaf verið að tala um að núna sé hann að hverfa eða þynnast út. En við höfum eiginlega verið að segja sama hlutinn í tvö ár og við vitum ekkert hvernig þetta þróast áfram. Þá er spurning hvort við séum að gefa út einhvern óútfylltan víxil inn í framtíðina varðandi kostnaðinn við veiruna. Það virðist því miður vera illa haldið utan um þennan kostnað og einhvern veginn hefur maður alltaf á tilfinningunni þegar þetta er sett í eina tölu að verið sé að reyna að fela eitthvað, það sé eitthvað þarna sem einhver vill ekki að sjáist, þótt það sé kannski ekki svoleiðis, en maður hlýtur eðlilega að spyrja sig hvort verið sé að fela eitthvað í þessu máli.

Annað sem ég rak augun í nefndaráliti meiri hluta er að útgjöld vegna tannlækninga og sjúkraþjálfa eru endurmetin um 2,1 milljarð og svo eru 2,6 milljarðar vegna endurmats á lyfjakostnaði sem tengist sennilega Covid. En sjúkraþjálfun og tannlækningar eru útgjöld sem hafa aukist, og sérstaklega sjúkraþjálfun tel ég, út frá Covid-veikindum. Í því samhengi finnst mér vanta og hefði viljað sjá í þessu fjáraukalagafrumvarpi að settur væri inn sá kostnaður, gert ráð fyrir honum, sem er við að semja við t.d. talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og sérgreinalækna. Þetta eru stéttir sem hafa verið í lausu lofti í boði ríkisstjórnarinnar, engir samningar. Það sem er grafalavarlegt við þetta er að þarna veltir ríkisstjórnin gífurlegum kostnaði yfir á verst stadda fólkið, fólk sem er veikt og sem á börn, t.d. í sambandi við talmeinafræðinga og í sjúkraþjálfara þar sem eru óásættanlegir biðlistar. Það er auðvitað óásættanlegt þegar fólk er komið í þá stöðu að það telur sig ekki hafa efni á því að fara með börn sín til talmeinafræðinga, hefur ekki efni á fara í sjúkraþjálfun og hefur ekki efni á að fara til sérgreinalæknis.

Því miður virðist ríkisstjórnin vera á þeim buxunum, eins og hefur sýnt sig, að ætla ekkert að taka á þessu heildstætt heldur vera með plástra. Í því samhengi hefði ég líka vilja sjá í fjáraukanum góða upphæð til að taka á NPA-vandanum, notendastýrðri persónulegri aðstoð, vegna þess að við sjáum, liggur við í beinni útsendingu, í viðtölum í sjónvarpi að verið er að setja ungan mann á elliheimili. Spáið í þetta, hver vill fara á elliheimili á milli fertugs og fimmtugs? Sú staðreynd að það skuli vera 144 einstaklingar undir 67 ára á elliheimili á að hringja öllum viðvörunarbjöllum. Það ætti að hringja það miklum viðvörunarbjöllum beint hingað inn að við myndum redda þessu. Vegna þess að ef við getum og höfum efni á að setja 23.611 milljónir aukalega í Covid þá höfum við efni á að taka á þessum vanda. Við höfum ekki bara efni á því, við verðum að taka á þessum vanda. Það er ekki boðlegt að hafa hlutina svona, að fólk biðji, liggur við í örvæntingu, um hjálp til að vera ekki lokað inni á elliheimili.

Svo erum við líka með óleystan vanda þar sem fólk á elliheimili mótmælir aðstæðum sínum. Hvergi í frumvarpinu er tekið virkilega á því og settir inn peningar til að leysa vanda hjúkrunar- og elliheimila. Að það skuli enn þá vera þannig að það séu tveir í herbergi. Að það skuli vera staðreynd að eini möguleiki viðkomandi til að vera einn í herbergi sé sá að vera hreinlega að kveðja lífið. Þetta er svo fjarstæðukennt að manni finnst maður vera í einhverjum ólíkindaheimi. Ég spyr: Hvar hefur þessi ríkisstjórn verið síðustu fjögur árin? Svarið er einfalt: Úti á túni. Hún hefur bara verið að hoppa úti um allar koppagrundir og einhvern veginn yppt öxlum og ætlar að halda öllu óbreyttu. Og halda hverju óbreyttu? Jú, hafa allt í ólestri áfram, eins og ég hef talið upp hér. Það virðist ekki vera neinn vilji til að breyta því.

Eins og ég segi kom plástur fyrir öryrkjana, 53.100 kr., en þessi plástur kom ekki fyrir ellilífeyrisþegana. Við megum ekki gleyma því að það eru ellilífeyrisþegar þarna úti sem hafa ótrúlega lélegar tekjur. Við vitum að jú að það var híft upp fyrir þá sem eru í búsetuskerðingu en það var ekki híft nema upp í lægstu ellilífeyrislaun og samt tókst að hafa það 10% minna. Þú lifir ekki á lægsta ellilífeyri, þú getur tórt á 220.000 kr. En ef þú færð 10% minna plús krónu á móti krónu skerðingu af öllum öðrum tekjum þá er það eitthvert fáránlegt fjárhagslegt ofbeldi sem á ekki að líðast. Það á heldur ekki að líðast að við í þessum sal mismunum fólki aftur og aftur. Stjórnarskráin á að sjá til þess að svo sé ekki og við eigum að virða hana og virða jafnrétti og við eigum líka koma fram við eldri borgara, aldraða fólkið okkar sem hefur byggt upp þetta land, af virðingu. Við eigum ekki að verða þess valdandi að þau fái ekki það sem þau eiga rétt á, alveg eins og allir aðrir. Ég held að það sé algerlega kominn tími til að þessi ríkisstjórn fari að bera virðingu fyrir þeim sem byggðu upp landið, eldra fólkinu okkar, og sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að þau sitji við sama borð og aðrir. Þau gera ekki meiri kröfur. Þau gerðu kröfu núna um 17.000 kr. hækkun í staðinn fyrir 10.000 kr. hækkun. Þetta er hógvær krafa en þeir ætla samt að hunsa hana.