154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[11:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Forseti. Ég ætla nú ekki að láta þetta fullkomnu stjórnleysi ríkisstjórnarinnar taka augu okkar hér á þinginu af boltanum. Það eru brýn verkefni sem við verðum að tækla og ég ætlaði að fá að ræða við heilbrigðisráðherra um stöðu hjúkrunarheimila í landinu.

Við vitum alveg nú þegar hvernig þróunin verður, mannfjöldaspárnar liggja fyrir. Ef horft er til hópsins 80–89 ára þá mun fjölga í þeim hópi um 85% til ársins 2038, úr 10.900 í 2.100. Það blasa risastórar áskoranir við, en það eru allt of margir einstaklingar sem liggja á sjúkrahúsum, við fundum það í kjördæmavikunni þegar við heimsóttum LSH, sem ættu frekar að vera inni á öldrunarheimilum.

Það eru tæp sjö ár síðan pabbi minn dó, nokkurn veginn líftími þessarar ríkisstjórnar. Ég sá hann fara inn á bráðamóttökuna, sá hann síðan fara inn á Landakot, inn á Vífilsstaði, flakkaði á milli staða og svo loksins komst hann inn á Grund, var þar í viku og dó. Ég er með mömmu mína núna í sömu stöðu þar sem hún fór á LSH, frábærlega sinnt, einstakt starfsfólk, fer upp á hæðir. Ég held að ég sé að lýsa nokkurn veginn sömu sögu og önnur börn eru að upplifa með sína foreldra. Hún fór síðan inn á Landakot, fékk frábæra umönnun þar með tveimur öðrum í herbergi og síðan fékk hún loksins bara núna nýlega inni á Hrafnistu heima í Hafnarfirði.

Þetta er saga sem við, m.a. í kjördæmavikunni, erum að heyra aftur og aftur. Á líftíma þessarar ríkisstjórnar er ég sjálf búin að upplifa það að það hefur ekkert breyst, ekki neitt, í hjúkrunarheimilum. Ef eitthvað er hefur staðan frekar versnað og við sjáum það.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlum við að gera til að koma í veg fyrir að stækkun LSH, þessi brýna og mikilvæga stækkun LSH, verði ekki bara stækkun á LSH sem öldrunarstofnun? Ætlar hæstv. ráðherra líka beita sér fyrir því að við förum inn í svonefnt samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila til að fjölga þjónusturýmum, fjölga hjúkrunarrýmum? Það er lag núna þegar byggingamarkaðurinn er niðri. Mun hæstv. ráðherra beita sér í þessum málum og þá hvernig?