155. löggjafarþing — 14. fundur,  10. okt. 2024.

stuðningur við Grindvíkinga.

[11:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir sléttum 11 mánuðum þurftu íbúar Grindavíkur að yfirgefa heimili sín vegna náttúruhamfara. Síðan þá hefur gosið sex sinnum á Sundhnúksgígaröðinni og sjöunda gosið kemur fyrir áramót ef að líkum lætur. Fáir búa í bænum, enda er það hættulegt. Það mun líða langur tími þar til börn geta búið í bænum og þar til þjónusta verður þar við aldraða. Grindvíkingar eru flestir farnir og dreifðir um landið. Sumir eru þó enn með lögheimili í Grindavík og Grindavíkurbæ ber að veita þeim þjónustu. Of margir Grindvíkingar búa enn við óásættanlegar aðstæður sem hugsaðar voru til skamms tíma. Þar eru aldraðir og fatlaðir í erfiðustu stöðunni. Staða þeirra hefur versnað til muna við að yfirgefa bæinn, hvort sem er fjárhagslega eða félagslega, og því fylgir bæði kvíði og depurð. Börnin glíma við afleiðingar þess að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt, skólann sinn og vinina. Foreldrarnir glíma einnig við eftirköst. Þótt sannarlega sé búið að gera mjög margt þá eru þau enn of mörg sem hafa ekki getað nýtt sér úrræði stjórnvalda. Til dæmis skortir úrræði fyrir smærri fyrirtæki sem ekki geta starfað annars staðar en í Grindavík og tilfinning um mismunun er til staðar. Engin fyrirheit um aðgerðir er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Ráðamenn þjóðarinnar hétu Grindvíkingum stuðningi. Það átti að standa með þeim og styðja þá með ráðum og dáð. Um það vorum við öll sammála. Samt er til fólk og fyrirtæki úr Grindavík sem finnst eins og enginn standi með þeim. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hann telji að ætti að felast í orðunum að standa með Grindvíkingum.