155. löggjafarþing — 14. fundur,  10. okt. 2024.

stuðningur við Grindvíkinga.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hv. þingmaður spyr mig ekki um neitt. Af hverju gerið þið ekki þetta hér? Eða þetta hér? Hvers vegna er ekki einhver ákveðin aðgerð gerð? Hv. þingmaður hefur hér fullan rétt og mikið tækifæri til þess að segja hvað það er sem hv. þingmaður er að biðja um. Nú er það þannig að ríkisstjórnin hefur varið í heild, ég myndi giska á að talan sé að nálgast núna 100 milljarða út af atburðunum í Grindavík. Við höfum farið í fordæmalausar aðgerðir til að stöðva hraunrennsli sem annars hefði farið yfir bæinn. Við höfum líka verið að verja orkumannvirki. Við höfum keypt upp og boðist til að kaupa allt íbúðarhúsnæði í Grindavík og íbúðarhúsnæði þar sem fólk hafði lögheimili. Við höfum ekki keypt upp annað íbúðarhúsnæði þar sem fólk var ekki með lögheimili sitt, það er út af fyrir sig rétt. Við höfum veitt gríðarlegar fjárhæðir í stuðning út af rekstrarvanda á svæðinu. Það sem ég kalla bara eftir, vegna þess að hér er látið að því liggja að ríkisstjórnin hafi ekki gert nægilega mikið þótt hún hafi bráðum varið um 100 milljörðum í verkefnið, 100 milljörðum, að menn séu þá skýrir um hvað það er sem verið er að biðja um.

Er hv. þingmaður að segja að ríkisstjórnin eigi nú að kaupa allar eignir allra lögaðila í Grindavík, fyrirtækja sem eru þar með rekstur? Við höfum verið að standa með þessum fyrirtækjum í gegnum launagreiðslur og vegna annars tekjutaps. Ég segi bara: Það er útilokað að taka vitræna umræðu um þetta mál nema það liggi fyrir um hvað nákvæmlega er verið að spyrja.