155. löggjafarþing — 14. fundur,  10. okt. 2024.

stuðningur við Grindvíkinga.

[11:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra bregst bara önugur við þegar ég spyr hann skýrt hvað hann telji að eigi felast í orðunum að standa með Grindvíkingum. Það er staðreynd, forseti, að það er fólk sem upplifir sig hreinlega yfirgefið í stöðunni og þar eru þeir sem standa veikastir fyrir í erfiðastri stöðu. Ég vil bara segja það hér að stjórnvöld mega ekki gleyma Grindvíkingum sem þurfa á úrræðum að halda þó að margir geti spjarað sig þokkalega. Þó að það sé búið að eyða mörgum milljörðum í eitt og annað þá er ég að benda á hér, og gerði í fyrri ræðu minni líka, að það er fólk sem þarf á frekari úrræðum að halda.

Ég vil spyrja líka hvort þær hafi komið hæstv. forsætisráðherra á óvart, fréttirnar um að það ætti að opna bæinn í næstu viku. Er fyrirhuguð opnun bæjarins byggð á hættumati? Mæla almannavarnir með opnun á þessum tímapunkti? (Forseti hringir.) Liggur fyrir stefnumörkun um í hvaða tilgangi opnunin sé núna, rétt fyrir næsta gos? Hvernig verður vöktun í bænum háttað (Forseti hringir.) og hvernig verður eftirliti háttað með hættusvæðum?