155. löggjafarþing — 14. fundur,  10. okt. 2024.

stuðningur við Grindvíkinga.

[11:10]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég segi að við ætlum að standa með Grindvíkingum þá er það nákvæmlega í aðgerðunum sem við höfum verið að beita okkur fyrir. Með því að reisa varnargarða þá segjum við að bærinn eigi framtíð. Þegar við stöndum með fyrirtækjunum og segjum að við viljum að þau geti haldið áfram að starfa þegar þessir atburðir hafa liðið hjá og að við ætlum að leyfa okkur að trúa því að ástandið geti lagast, það er að standa með Grindvíkingum. Þegar við kaupum upp hverja einustu fasteign án lagaskyldu, það er að standa með fólkinu sem býr í Grindavík og reyna allt sem við getum til þess að hjálpa því að koma sér fyrir annars staðar. Og þegar við tökum að okkur að greiða launagreiðslurnar þá erum við að segja: Við viljum ekki að þið farið á hausinn, við ætlum að standa með ykkur. Svona get ég haldið áfram að telja. Svo kemur hér hv. þingmaður og segir: Hvað, ætlið þið að fara að opna bæinn? Það er nákvæmlega það sem þetta fólk er að biðja um. Og samt kemur hv. þingmaður og segir: Nei, þið verðið nú að fara að passa ykkur. Þið mega ekki opna bæinn. Við höfum verið að vinna hörðum höndum að því að geta opnað bæinn, auðvitað að teknu tilliti til allrar varúðar (Forseti hringir.) sem þarf að gæta í því sambandi; með því að girða af sprungur, með því að laga innviðina, (Forseti hringir.) með því að tryggja að fólk geti komist til og frá vinnu. Við erum ekki að tala um (Forseti hringir.) að hefja búsetu í Grindavík á þessum tímapunkti þó að bærinn verði opnaður. Við erum að tryggja að þarna geti (Forseti hringir.) verið eðlileg atvinnustarfsemi og að innviðir virki. Það er það sem er stærsta ákallið (Gripið fram í.) frá Grindvíkingum um. (Forseti hringir.) Þannig að ég furða mig á því að hv. þingmaður skuli vera að sá efasemdafræjum um það.

(Forseti (BÁ): Forseti vekur athygli á því að ræðutími er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum við tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í síðari ræðu og verður að virða það.)