155. löggjafarþing — 14. fundur,  10. okt. 2024.

virðisaukaskattur.

50. mál
[11:22]
Horfa

Flm. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um hækkun á veltumörkum virðisaukaskatts. Þetta er lítið einföldunarmál sem getur þó skipt fjölmarga aðila miklu máli. Í 3. tölulið 4. gr. laga um virðisaukaskatt er kveðið á um að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2 millj. kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili, frá því að starfsemi hefst, séu undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Slíkir aðilar þurfa því ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni en geta á hinn bóginn ekki fengið frádreginn virðisaukaskatt vegna innkaupa sinna.

Upphaflegur tilgangur þessa undanþáguákvæðis var að undanþiggja skattskyldu mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem eingöngu væri rekin í hjáverkum eða stöku sinnum. Undanþágan helgaðist fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum. Upphaflega námu þessi veltumörk 100.000 kr. en hafa frá gildistöku virðisaukaskattslaga verið hækkuð fjórum sinnum, fyrst árið 1997 upp í 220.000 kr., aftur árið 2008 upp í 500.000 og í þriðja sinn árið 2011 upp í 1 millj. kr. og að lokum árið 2016, með gildistöku 1. janúar 2017, upp í gildandi veltumörk, 2 millj. kr. Eftirfarandi röksemdir hafa legið hækkunum til grundvallar.

1. Hagkvæmnisástæður. Einföldun rekstrarumhverfis þeirra aðila sem hafa lítil umsvif.

2. Samræmi við atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga. Reglan kveður á um að eigi skuli skrá aðila á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

3. Raunlækkun veltumarka vegna verðlagsbreytinga.

4. Í samræmi við fjárhæðir veltumarka í helstu samanburðarlöndum.

Veltumörkin eru ekki vísitölutengd og lækka því að raungildi með tíð og tíma. Ef veltumörk gildandi laga eru uppreiknuð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá byrjun júní 2016 til ágúst 2024 nema þau 2.905.634 kr. Með það fyrir augum að létta reglubyrði smærri aðila og einstaklinga, bregðast við raunlækkun veltumarka vegna verðlagsbreytinga og létta álagi á skattyfirvöldum er lagt til að veltumörkin, sem hafa staðið í stað síðan 2017, verði hækkuð úr þessum 2. millj. kr. upp í 3 millj. kr.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög hóflega hækkun og má alveg færa rök fyrir því að mörkin geti verið hærri enda höfum við ekki breytt þeim frá því á árinu 2017. Ég tel þetta því framfaraskref, þetta litla einföldunarfrumvarp fyrir smærri aðila. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.