144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær þar sem mannréttindin sigruðu. Þau sigruðu líka nýlega í hæstarétti Bandaríkjanna, sem er mikið gleðiefni.

Mig langar að gera að umfjöllunarefni það sama og hv. framsóknarmenn hafa gert hér, þ.e. Reykjavíkurflugvöll. Ég er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og ég kalla sjálfan mig 101-miðbæjarrottu algjörlega skammarlaust og vil helst hvergi vera nema í miðbæ Reykjavíkur. Hins vegar finnst mér umræðan um flugvöll Reykjavíkur oft byrja á röngum enda. Fólk af landsbyggðinni segir oft hversu mikilvægur flugvöllurinn í Reykjavík sé fyrir það og ég skil það mætavel. En áður en við förum að mynda okkur skoðun á því hvar flugvöllurinn eigi að vera til frambúðar finnst mér að við eigum við frekar að byrja á hinum endanum, sem er að við veltum fyrir okkur innviðum landsbyggðarinnar, hvort við eigum ekki frekar að styrkja innviði landsbyggðarinnar, byrja þar, öðlast sátt um hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi (RM: Flytja stofnanir.) á landsbyggðinni, jafnvel flytja stofnanir þangað ef málefnaleg rök eru fyrir því. Ég trúi því að oft séu mjög málefnaleg rök fyrir því að styrkja heilsugæsluna og jafnvel íhuga mjög alvarlega þær hugmyndir sem fram hafa komið um að gera annan alþjóðaflugvöll á Íslandi annars staðar á landinu, bæði til þess að dreifa ferðamannastraumnum yfir landið með betri hætti, sömuleiðis til þess að gera það auðveldara að dreifa þessum innviðum, og síðast en ekki síst til þess að innviðirnir séu líklegir til þess að byggjast upp á stöðum úti á landi vegna þess að væntanlega hafa þeir byggst upp hér í Reykjavík að miklu leyti vegna þess að flugvöllurinn er hér.

Mér finnst að við eigum að skoða þetta mál allt í miklu víðara samhengi, taka miklu dýpri umræðu um það hvernig hægt er að öðlast sátt milli landsbyggðar og höfuðborgar um þetta mál, vegna þess að þegar ég íhuga þetta sem stolt miðbæjarrotta finnst mér við deila meira um það en við þurfum.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.