145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er eitt reyndar af því að hann talar um að ekki sé alveg skýrt hvernig þessum peningum sé varið og ræddi um að það væri kannski heillavænlegra að dreifa því fé þannig að það færi til byggðastyrkja og síðan mættu bara bændur framleiða það sem þeim dytti í hug. Það er Evrópusambandskeimur af þessu vegna þess að Evrópusambandið er jú með sína landbúnaðarstyrki inni í eins konar púllíu, þar getur enginn maður hönd á fest í hvað styrkirnir fara.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki ekki nóg að gert vegna þess að reynt var, alla vega í nefndarstörfunum, að beina kastljósinu sérstaklega að harðbýlum svæðum og þar sem byggðir eiga undir högg að sækja, hvort hv. þingmanni finnst ekki nóg að gert í þessum samningi til að reyna að tryggja það þar sem byggðin er gisnust og undir mestum þrýstingi.