145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þær fáu sekúndur sem ég hef hér til ráðstöfunar til þess að þakka fyrir umræðuna og leggja áherslu á að skýrslan sem við höfum nú haft til umfjöllunar er að mínum dómi vitnisburður um vilja Alþingis til að horfast í augu við orsakir og afleiðingar banka- og fjármálahrunsins sem hér dundi yfir árið 2008. Skýrslan sem við höfum til umfjöllunar hefur sína kosti og sína galla. Bent hefur verið á ýmsa galla á skýrslunni. Á ýmsum þáttum hefði mátt taka skýrar og fastar. Menn hafa nefnt Dróma sem dæmi þar um. Ég kom inn á slíkt í upphafsræðu minni.

Á hinn bóginn hef ég trú á því að þessi skýrsla geti orðið góður grunnur að því framtíðarstarfi sem nú þarf að ráðast í. Það varðar framtíðarskipan fjármálakerfisins í landinu. Ég vil taka undir með þeim sem þar hafa lagt áherslu á að við þurfum sérstaklega að skoða hin samfélagslegu gildi sem sparisjóðakerfið var upphaflega reist á. Menn hafa í því efni talað um samfélagsbanka. Fram kom í þingsályktun Alþingis sem hratt þessu máli öllu af stað að Alþingi bæri að ráðast í slíka vinnu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur undir það. Ég vil ítreka að hin sögulega úttekt sem er að finna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sparisjóðina ætti að geta komið vel þar að gagni. Ég vil skilja við málið með því að leggja áherslu á að á því þingi sem senn tekur til starfa að afloknum kosningum, verði ráðist í þá vinnu.

Enn vil ég segja hitt að það er mikilvægt, og það ætti að vera okkur lærdómur líka, að þegar við tökumst á við erfiðleika af því tagi sem við höfum gengið í gegnum gerum við það með þeim hætti sem við erum að læra að gera. Við ráðumst í vandaðar rannsóknir, reynum að hverfa frá hvers kyns dylgjunálgun, við reynum að taka málefnalega á málunum, það höfum við reynt að gera í þessari vinnu. Sitthvað má gagnrýna, eins og ég gat um áðan, en ég tel engu að síður að við séum að feta okkur áfram inn í betri eða skárri framtíð en við höfum búið við í þessum efnum.