145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa síðari umr. um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, m.a. til að ítreka ýmis atriði sem ég ræddi um í fyrri umr. um þetta sama mál. Það eru ákveðin atriði sem mig langar að ítreka við þessa síðari umr. Það er ýmislegt mjög fínt í nefndarálitinu frá allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil taka fram að ég sit ekki í hv. þingnefnd og tók því ekki þátt í umræðu um framkvæmdaáætlunina á þeim vettvangi og bý þar af leiðandi ekki yfir öllum þeim upplýsingum sem nefndarmenn búa yfir í þessu máli en tel að það séu nokkur atriði sem er mikilvægt að ítreka enn frekar.

Mig langar að byrja á að segja að ég fagna því að nefndin árétti að nauðsynlegt sé að kanna hvort núgildandi lög og fyrirkomulag stjórnsýslu sé í samræmi við þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum og tengist það í rauninni því meginmáli sem ég ætla að koma að á eftir sem snýr að fötluðu fólki, þá ekki síst fötluðum konum. Mig langar einnig að segja að ég fagna því að nefndin taki það upp og bendi á að lengi hafi staðið til að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um mismunun með setningu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Það er atriði sem ég tel að skipti alveg gríðarlega miklu máli og tengist öðrum þingmálum sem hafa verið til umræðu og verða til umræðu. Við getum nefnt frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar sem dæmi þó að það frumvarp lúti raunar aðeins núna að breytingum sem snúa að ellilífeyrisþegum, en það hefur verið í umræðunni að auka þátttöku fatlaðs fólks líka á vinnumarkaði sem og að eldra fólk geti verið lengur á vinnumarkaði. Þá mun reyna á það að ekki sé hægt að mismuna fólki á vinnumarkaði með tilliti til fötlunar. Það er ekkert nema almenn ákvæði sem verja fatlað fólk fyrir því að því sé ekki mismunað á vinnumarkaði. Þess vegna fagna ég því líka að nefndin telji nauðsynlegt að skoða hvort undirbúa eigi gerð almennrar löggjafar um bann við mismunun á grundvelli fleiri mismununarbreyta en eingöngu kynferðis. Um þetta er reyndar fjallað hérna í kafla sem ber titilinn Stjórnsýslan. Ég átta mig ekki alveg á því en held að það hljóti samt að vera að það sem nefndin hugsi sé að varðandi þessa mismununarbreytu eigi að skoða þá efnisþætti sem fjallað er um í nefndarálitinu, sem er vinnumarkaðurinn, lýðræðið, ofbeldi, skólastarf, að þessi mismununarbreyta eigi að ná í gegnum það allt saman. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við skoðum alla þætti samfélagsins, ekki með tilliti til kynferðis eingöngu, heldur þurfi einmitt að taka fleiri þætti inn og samspil fleiri þátta.

Frú forseti. Við fyrri umr. um þetta mál gerði ég að sérstöku umfjöllunarefni þann kafla sem fjallar um kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum og benti á að nú er það þannig að almennar aðgerðir eiga vitaskuld að ná til allra en reyndin er hins vegar oft sú að þegar upp er staðið ná almennar aðgerðir því miður ekki til fatlaðs fólks. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað eigi málefni fatlaðs fólks að heyra undir almennar aðgerðir en vegna þess að við erum ekki komin á þann stað að það haldi verðum við alltaf að minna á það og gera ráð fyrir því í þeim lögum og ályktunum sem við samþykkjum á endanum á Alþingi.

Því miður eru fatlaðar konur í gríðarlega mikilli hættu á því að vera beittar kynbundnu ofbeldi. Við munum líklega flest eftir umræðunni sem átti sér stað í haust vegna þess að það komu upp alvarleg ofbeldismál sem vakti samfélagið til meðvitundar um það að fatlað fólk, sérstaklega fatlaðar konur, er útsett fyrir ofbeldi. Þess vegna finnst mér í raun ágætt að það eigi að fá heilbrigðisþjónustuna að verkefninu þegar kemur að því að skipuleggja aðgerðir til að sporna við ofbeldi en tel að það þurfi fleiri aðila til að koma að verkefninu. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisþjónustan sé þarna en ég held að í því samhengi sé líka mjög mikilvægt að sveitarfélögin séu einnig með í ráðum vegna þess að þau veita mjög mikilvæga þjónustu en því miður gerist það líka að það eru þjónustuveitendurnir sem í raun beita fólk ofbeldi. Við þurfum að koma í veg fyrir það og ég held að þar sé fræðsla, og einkum til starfsfólks, alveg gríðarlega mikilvæg.

Hér er einnig fjallað um jafnrétti í skólastarfi. Það er einnig mjög mikilvægt og ég tek undir með nefndinni þegar hún fagnar því að auka eigi jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Ég tek undir að mikilvægt sé að innleiða kynjafræði í grunnnám allra kennaranema til að hægt sé að kenna börnum kynjafræði. Mig langar í því samhengi aftur að minna á mismununarbreytuna og mikilvægi þess að hún sé látin ganga í gegnum allt kerfið því að því miður eru brögð að því að fatlaðir nemendur hafa ekki fengið kynfræðslu í skólum líkt og ófatlaðir nemendur fá. Þeir eru því í erfiðari stöðu en aðrir nemendur þegar kemur að því að þekkja mörk í nánum samböndum til að mynda og þekkja rétt sinn. Þarna tengist aftur saman jafnrétti í skólastarfi og þá hvernig við ætlum að taka á kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Það má eiginlega segja að ég sakni þess að þetta sé ekki hnýtt enn betur saman því að það hefur orðið, líkt og ég sagði áðan, vitundarvakning um að fatlað fólk, þá sérstaklega fatlaðar konur, sé í viðkvæmari stöðu en aðrir hópar. Ég tel alveg gríðarlega mikilvægt að þegar við erum almennt að fjalla um jafnréttismálin gleymum við aldrei að halda fókusnum á þetta. Ég held að við séum öll alveg sammála um þetta en það á það til að gleymast þegar kemur að því að afgreiða málin. Að hluta til held ég að það sé vegna þess að okkur er svo tamt að ræða um málefni fatlaðs fólks í einhverju boxi sem heitir málefni fatlaðs fólks meðan fatlað fólk er alls konar og er hluti af samfélaginu. Það er okkar sem hér erum að passa að þannig sé það einnig í öllum þeim ályktunum og öllum þeim lögum sem frá okkur á Alþingi koma.