140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

undirbúningur að hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

95. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er nú svo í okkar blessaða landi að þar sem slorlykt er daglegt brauð detta hlutir út úr umræðunni og þykja ekki spennandi í okkar gáfaða samfélagi sem gerir miklar kröfur en leggur kannski ekki alveg eins mikla áherslu á að gefa í staðinn. Þorlákshöfn var stækkuð nokkuð fyrir um tíu árum og gerð aðgengileg því að hún var í raun stórhættuleg fyrir bæði fiskiskip og önnur skip sem þar komu. Þá voru líka uppi áform um að gera hana að svokallaðri stórskipahöfn, þ.e. að stærstu flutningaskip sem koma til landsins gætu lagst þar að bryggju. Allar rannsóknir sem gerðar voru hjá Siglingastofnun miðuðu við að undirbúa jarðveginn fyrir byggingu alvöruhafnar, eins og það var kallað á sínum tíma, hafnar sem gæti sinnt þessum stóru skipum. Það er auðvitað lykillinn að því að þar sé hægt að byggja upp ákveðinn iðnað með íslenskri orku, margs konar iðnað stórvirkra tækifæra. Menn hafa stundum strandað á því og sagt að ekki væri ástæða til að byggja upp þar sem um væri að ræða álver. Látum það liggja á milli hluta en við skulum líka minnast þess að álver, kísilver eða annað af stórvirkum verksmiðjustíl nútímans eru þættir sem koma og fara, eins og fólk. Þau geta staldrað við í tíu ár, 20 ár, 30 ár en svo kemur eitthvað annað og þá er inneign okkar í orkuverum landsins fjársjóður okkar um ókomna framtíð miðað við að við gætum þess að ganga eðlilega um landið okkar og blóðmjólka það ekki eða taka of mikið úr einum farvegi sem skilar þessari auðlegð til okkar, til samfélagsins.

Það hefur verið skemmtilegt um langt árabil að fylgjast með starfsemi Siglingastofnunar sem leyst hefur hvert verkefnið á fætur öðru með miklum undirbúningi, vönduðum rannsóknum, og það hefur alls staðar staðist þó að byrjunarörðugleikar hafi komið upp á einstaka stað, til að mynda í Landeyjahöfn í dag sem menn munu auðvitað yfirvinna. Höfn er eins og manneskja, hún þroskast og tekur breytingum. Höfn þarf alltaf að aðlaga sig því umhverfi sem hún er í, hún þarf að læra á hreyfingar, strauma, sand, öldulag og annað, og út frá því geta þeir nýtt mannvirkin til árangurs.

Það er gríðarlega mikil þörf fyrir stórskipahöfn, sem er þá alhliða höfn líka, fyrir fisk og vörur, útflutning á jarðefnum og annað, sem átt hefur sér stað um langt árabil í Þorlákshöfn, af Hekluvikri til að mynda, sem skiptir miklu máli í atvinnusköpun og öflun gjaldeyris. Ákveðnar hafnir þurfa að vera í þeirri stærð að þær geti tekið við þeirri þróun sem á sér stað í gerð flutningaskipa. Stærstu skip sem þarf í þessa flutninga komast til að mynda ekki inn í Þorlákshöfn í dag. Hið sama er að segja um stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjar, þar er dýpi ekki nóg og aðstaða ekki í lagi. Þess vegna þarf að byggja það upp eins og menn undirbúa nú. Til að mynda er bæjarsjóður um nokkurra ára bil búinn að leggja til hliðar fjármagn til að fara í það verkefni. Slík vandkvæði í ýmsum höfnum landsins hafa valdið því að skipafélögin sem sinna nánast öllum flutningi til lands og frá, bæði Samskip og Eimskip, hafa orðið að staldra við í endurnýjun og uppbyggingu á stærri flutningaskipum sem liggja á borðinu, eru mun hagkvæmari í rekstri og öllum þáttum sem lúta að þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna. Þess vegna verða menn að vera vel á verði, standa vaktina og standa saman um að leysa þau vandamál sem þarf að leysa.

Það er gott og gilt að byggja glæsilegt hús eins og Hörpu, það er metnaðarfullt og glæsilegt og það hjálpar Íslendingum í hugsun sinni, en við megum ekki gleyma því sem gefur gjaldeyrinn, sem veldur því að hægt er að byggja hús eins og Hörpu. Það er sjávarfangið sem skiptir þar mestu máli. Þess vegna þurfum við, jafnhliða því að fiðlan sé rétt stillt, að stilla hafnirnar þannig að þær geti tekið á móti afla, bæði til vinnslu og til útflutnings. Það er spennandi verkefni af því að það eru lyklarnir að framtíð Íslands, það eru lyklarnir um ófyrirsjáanlega framtíð og við þurfum að rækta garðinn þannig að við getum nýtt hann skynsamlega, þannig að við getum þróað hann á þann hátt að við fáum sem mest verðmæti fyrir hvert kíló af fiski, hvert kíló af jarðefnum, hvert kíló sem við vinnum úr til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar.

Það er ekki lengur þannig að humri sé hent fyrir borð eða skötusel og fleiri tegundum sem menn hreinlega köstuðu í sjóinn þegar þær komu inn fyrir borðstokkinn. Þarna liggja einhverjar dýrustu tegundir sem eru á markaði í dag. Ég man að afi minn sem var einn fyrsti maðurinn í Vestmannaeyjum sem vomaði yfir því að fá humar var talinn stórskrýtinn. Venjan var sú að henda þessu.

Þannig eigum við að læra af reynslunni og hugsa stórt og þora þegar kemur að svona mannvirkjum. Það er alveg ljóst að mikilhæf höfn í Þorlákshöfn mun kosta eina 5–7 milljarða, en þó ekki meir. Búið er að gera allar rannsóknir í líkanastöð Siglingastofnunar en það á eftir að vinna úr þeim. Það á eftir að hanna mannvirkið en það er ótrúlega mikil vinna sem liggur að baki. Og alltaf er Siglingastofnun að safna í sarpinn. Framkvæmdir Siglingastofnunar til að mynda í Grindavík og við Höfn á Hornafirði þar sem eru mjög erfiðar aðstæður hafa hjálpað við að byggja upp aðrar hafnir á landinu. Menn hafa lært af því og sett saman bita í púsluspili sem verið hefur til góða fyrir hvert samfélag, fyrir hverja byggð og fyrir landið í heild. Ég vona að þetta mál gangi nú fram, það er þingsályktunartillaga. Hún er ábending til ráðherra með rökum fyrir því að skynsamlegt sé að fara í þennan farveg. Hún festir enga peninga en hún fleytir okkur fram á veginn. Við róum fram á veginn en ekki aftur á bak með því að taka á svona málum og afgreiða þau, virðulegi forseti.