148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Varðandi stefnumörkunina og áherslu á málefnasviðin þá hefur hæstv. ríkisstjórn lagt sína áherslu og gaf tóninn þegar í fyrstu fjárlögum. Mikið hefur verið talað um innviðauppbyggingu, en það var mjög áberandi hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem snúa að heilbrigðiskerfinu birtust í þeim fjárlögum. Síðan var boðað samráð við aðila varðandi velferðarkerfið og félagslega kerfið. Greina mátti viðleitni til þess að setja meira í menntakerfið.

Ég held að hv. þingmaður hafi að hluta til svarað spurningunni sjálfur. Við sjáum þegar við tölum um stefnumótun að það er lengra ferli en bara stefna, við sjáum markmiðin. Við sjáum nánari útfærslu í ríkisfjármálaáætlun á því á hvaða málasvið útgjöldum er forgangsraðað. Í stefnunni sjáum við markmiðin og svo útfærsluna í áætluninni tímasetta á málasviðunum og ábyrgðina og tölusettar stærðir í auknum mæli.

Varðandi fjárfestingar almennt töluðum við um að hagkvæmni og forgangsröðun skiptu máli. Það er mjög mikilvægt inn í framtíðina að það sé einhverjum takti við uppbyggingu þeirra atvinnuvega sem við horfum til.