148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Já, það er eðlilegt að hv. þingmaður geti ekki veitt skýr svör við þessum spurningum þar sem fjármálastefnan er mjög óskýr. Það eru endalausir fyrirvarar í stefnunni vegna þess sem fram kemur m.a. í athugasemdum fjármálaráðs, að líkön og annað sem notað er til þess að koma þessari stefnu á prent og setja hana fram er vitanlega ekki alfullkomið og er ýmislegt sem deilt er á þar.

Þegar við ræðum hagvöxt og skatta er mikilvægt að hagur launþega sé tryggður og að hagur ríkissjóðs sé tryggður. Það er líka mjög mikilvægt að atvinnulífið, sem skapar störfin og er grunnurinn að því að launþegarnir hafi vinnu, að ríkið fái tekjur, sé ekki sett í snöru eða að þrengt sé að því. Þess í stað ætti að fara í þá vegferð sem sumir stjórnarflokkarnir hafa reyndar lofað, að létta skattbyrði af atvinnulífinu, m.a. með því að lækka tryggingagjald.

Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort ekki eigi að fara í neitt sem viðkemur því að bæta stöðu atvinnulífsins, atvinnurekenda, þegar kemur að skattgreiðslum, vegna þess að það er ekki endalaust hægt að taka þar af. Það eigum við öll að vita. Léttari skattbyrði af atvinnulífi, hvort sem það er útgerð eða lítil nýsköpunarfyrirtæki eða annað, getur leitt til þess að fyrirtæki fjárfesti í frekari þróun í sinni atvinnugrein, þrói tæki og tól og ráði inn fleira fólk. Þess vegna má ekki gleyma því þegar við ræðum um launþega og ríkið að þar á milli eru atvinnurekendur.

Mér finnst hv. þingmaður í rauninni hafa undirstrikað það sem fram kemur í fjármálastefnunni, að hún sé mjög óljós og byggi á svolítið miklu giski, eins og hún orðar það svo ágætlega.