138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel kannski rétt í upphafi að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur á móti hvernig hún skilgreinir svokallað „óreiðufólk“ og hvað vill hún gera við svokallað „óreiðufólk“? Hvað telur hún eðlilega meðhöndlun á því?

Síðan vil ég taka upp umræðu um að fara sjálfkrafa inn í kerfið. Þetta var mikið rætt í nefndinni. Þetta er umdeilt. Nú er þetta þannig að fólk velur sig inn. Það er talið að margir hafi ekki haft nægar upplýsingar til að velja sig inn og að það sé líklegra að þeir sem ekki vilji vera inni hafi upplýsingarnar til að velja sig út. Þetta er umdeilanlegt og um það skiptar skoðanir, en nefndin ákvað samt að lokum og eru færð rök fyrir því í nefndaráliti að þetta yrði þannig að fólk þyrfti að segja sig frá þessu úrræði.

Varðandi þróun fasteignamarkaðarins, þá vonum við að sjálfsögðu að með þessu frumvarpi séum við að létta mestu yfirskuldsetningunni sem er fyrirséð að verði yfirveðsetning til langs tíma, þannig að við séum að losa um tappa í fasteignamarkaðnum. Við erum með ákvæði um það þar sem við felum félags- og tryggingamálaráðherra að leita að leiðum til fjármögnunar og endurfjármögnunar fasteignalána, bæði hjá lánastofnunum og Íbúðalánasjóði, því það er mjög stórt vandamál á íslenskum fasteignamarkaði í dag að ekki er aðgangur að lánsfé umfram 20 millj. kr. hámarkslánið hjá Íbúðalánasjóði.