142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er haft eftir formanni fjárlaganefndar að það sé stefna Framsóknarflokksins að afnema skuli listamannalaun í þeirri mynd sem þau eru og velja og styrkja í staðinn unga, efnilega listamenn. Einnig gerir hv. þingmaður athugasemdir við úthlutun listamannalauna á síðasta kjörtímabili og nefnir tengsl við ráðherra í því sambandi.

Það er hlutverk launasjóða hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda að veita listamönnum starfslaun og styrki samkvæmt lögum um listamannalaun. Sérstakar nefndir annast úthlutun starfslauna úr sjóðnum og þær eru skipaðar samkvæmt tillögum fagfélaga sjóðanna og á að fara eftir ákveðnum viðmiðum við úthlutunina.

Ég vil spyrja formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hvernig það að einangra starfslaun við unga, efnilega listamenn komi til móts við það markmið laga um listamannalaun að efla listsköpun í landinu og hvort hún telji það markmið ekki mikilvægt, t.d. til að ýta undir vöxt í skapandi greinum og þess framlags sem þær greinar skila til samfélagsins, hvort breytinga á listamannalaunum sé að vænta á næstunni og hvort stjórnarflokkarnir muni hafa áhrif á fagnefndir launasjóðanna og setji þeim viðmið, t.d. um tengsl við þingmenn eða ráðherra, og hafa með þeim hætti áhrif á val þeirra.

Einnig vil ég spyrja hv. þingmann hvort rætt sé um að skera listamannalaunin niður frá því sem nú er og hvort fyrirhugaðar séu breytingar á úthlutun heiðurslauna listamanna sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd sér um.