148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

lokafjárlög 2016.

49. mál
[17:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra fór vel yfir málið sem er frumvarp til lokafjárlaga, þannig að ég sé enga ástæðu til að fara ítarlega í það en vil þó segja að um er að ræða ákveðin tímamót þar sem þetta er í síðasta sinn sem við tökum þetta til umfjöllunar í þessu formi, þ.e. frumvarp til lokafjárlaga. Mér hefur þótt gagnlegt í gegnum tíðina að skoða það í samhengi við fjárlög og fjárauka og ríkisreikning og má eiginlega segja að frumvarpið sé í samtali við það. Jafnframt hefur það vinnulag í hv. fjárlaganefnd verið í gegnum tíðina að mynda vinnuhópa sem hafa nýtt frumvarpið til þess að afla skýringa vegna tiltekinna frávika, gjalda og fjárheimilda sem hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir, alla vega meginfrávikin. Í staðinn má segja eða má ætla að með nýjum lögum komi virkara eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Meginreglan við meðhöndlun fjárheimilda um áramót hefur verið að færa bæði afgangsheimildir og umframgjöld til næsta árs, þ.e. fjárheimild hækkar ef stofnun á afgang frá fyrra ári en lækkar ef um halla er að ræða og hefur þróast í gegnum tíðina allt frá 1992. Þá var meginhugmyndin að hvetja til ráðdeildar í ríkisrekstri þannig að ef stofnun á afgang af fjárlögum í árslok þá nýtur hún góðs af því á næsta ári. Þannig má segja, virðulegi forseti, að hafi verið tekinn út sá hvati að nýta endilega fjárheimildina fyrir áramótin. Með sama hætti færist hallarekstur til næsta árs og forstöðumenn stofnana verða að grípa til aðgerða til að færa útgjöldin af fjárheimildum.

Það eru auðvitað nokkrar undantekningar frá þessu verklagi. Eru ástæður þess taldar upp í frumvarpinu á bls. 63 og hæstv. ráðherra kom inn á, en þar er einkum horft til lögbundinna og hagrænna hliða, svo sem almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga.

Ég vil benda á að það fylgja tvö fylgiskjöl frumvarpinu. Mér hefur oft þótt þau að mörgu leyti skýrari en frumvarpið sjálft og þar eru dregnir fram fjárlagaliðir sem annars staðar er ekki að finna og yfirlit um allar afgangsheimildir og umframgjöld, sem eru í þessu frumvarpi færð til ársins 2017, og hins vegar er rakið upp hvernig heildarfjárheimild ársins 2016 og árslokastaðan er byggð upp. Um það er fjallað á bls. 64.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja umræðuna, en málinu hefur verið vísað til hv. fjárlaganefndar og nefndin mun fjalla um málið eins og verið hefur og nýta til þess að fara í saumana á stöku liðum, helstu frávikum, afgangsheimildum, umframgjöldum, flutningi á milli ára og niðurfelldum fjárheimildastöðum.