145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[15:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við í minni hluta atvinnuveganefndar og ef ég tala fyrir mig sem varaformann nefndarinnar þá tel ég fulla ástæðu til að styðja það að þetta mál fari hraðferð í gegnum þingið, það er þess eðlis. Það er ástæða til þess að nýta þann makríl sem er í lögsögu okkar áður en hann fer út úr henni og á meðan smábátarnir geta sótt hann við ströndina. Það berast fréttir af því að núna veiðist í Steingrímsfirði feitur og góður makríll. Það er brýnt að við, löggjafinn, bregðumst hratt við og mætum því að veiðigjaldið sé í takt við afurðaverð, eða eins og kemur fram í þessari breytingartillögu að verð á aflaheimildum í síld og makríl nemi sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir síld og makríl, menn séu þá að borga sambærilega fjárhæð fyrir aðgang að þeim veiðiheimildum sem þarna eru undir, 2.000 tonn af makríl, og fyrir það veiðigjald sem menn borga fyrir þessar tvær tegundir.

Ég tel það vera mjög sanngjarnt að stýra þessu á þann veg. Síðan má alltaf ræða uppboð eða ekki uppboð og leigu og ákvörðun á því hvernig ríkið útdeilir sínum aflaheimildum. Það er auðvitað miklu stærri og meiri umræða en gefst tækifæri fyrir hérna. En vissulega hafa verið hér undanfarna daga ráðherrar frá Færeyjum sem hafa viðrað svokallaða útboðsleið. Við vinstri græn höfum verið opin fyrir því að skoða hliðar á þeim málum þótt við munum ekki taka undir harða markaðsleið þannig að allur afli fari á uppboð og hinir stóru og sterku og fjármagnseigendur hafi þar möguleika fram yfir aðra til að sópa til sín öllum aflaheimildum hverju sinni. Það er miklu meiri og dýpri umræða en gefst tækifæri á að fara í hér þegar þetta mál er rætt. En við þurfum að taka þá umræðu og skoða með hvaða hætti við getum breytt fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að það sé möguleiki á nýliðun og fjölbreytni í greininni og að arðurinn renni líka til byggðanna, allt þetta sé undir, sem og að byggðirnar hafi eitthvert atvinnuöryggi hvað fiskveiðistjórn og fiskveiðar snertir.

Ég tel sem sagt að þetta mál sé gott og við eigum hiklaust að láta það fá hraðferð í gegnum þingið.