138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

málefni lífeyrissjóðanna og Landsbankans.

[10:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur á lífeyriseign landsmanna, sem er í rúmlega 30 lífeyrissjóðum, sem eign ríkisins, nokkurs konar spilapeninga í þeim ólgusjó endurreisnarinnar sem á að eiga sér stað.

Landsbanki Íslands er alfarið í eigu ríkisins sem og Vestia, dótturfélag Landsbankans. Nú hefur Framtakssjóður Íslands, sem er sjóður í eigu 16 lífeyrissjóða innan vébanda Landssambands lífeyrissjóða, keypt Vestiu þrátt fyrir að nú stöndum við frammi fyrir því að flótti er kominn í þetta samkomulag. Þegar Framtakssjóðurinn keypti Vestiu var ekki farið eftir verklagsreglunum sem kveða á um að eignir séu auglýstar og að jafnræðis sé gætt milli kaupenda. Eignirnar voru aldrei auglýstar til sölu. Bankasýsla ríkisins var sett á fót til að gæta að endurreisn fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði auk þess að tryggja gegnsæi í allri ákvarðanatöku. Eftir því var ekki farið við þessa yfirfærslu. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti rökstutt þetta lögbrot hér fyrir þingi og þjóð.

Að auki stendur í 3. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum séu eingöngu heimilar, með leyfi forseta:

„… ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna öllum aðgengilegir.“

Nú er það þannig að ársreikningar þessara félaga liggja ekki fyrir og hafa um hríð ekki legið fyrir allra augum. Eru lífeyrissjóðirnir að mati ráðherrans jafnframt að brjóta lög með þessu samkomulagi?

Í þriðja lagi: Er eitthvert undirliggjandi samkomulag (Forseti hringir.) milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, íslenska ríkisins og lífeyrissjóðanna (Forseti hringir.) um þessa yfirfærslu Vestiu til Framtakssjóðsins?