138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

fundarstjórn.

[12:01]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum sem fram komu í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Einars K. Guðfinnssonar vegna þess að þetta mál hefur verið í umsagnarferli í allt sumar, fjölmargir aðilar hafa komið með athugasemdir og umsagnir sem teknar hafa verið til greina. Búið er að breyta því frumvarpi sem lagt var fram á vordögum umtalsvert með tilliti til þeirra umsagna sem fram komu.

Fulltrúar allra flokka hafa komið að vinnslu þessa máls innan allsherjarnefndar. Um það eru skiptar skoðanir en það hefur verið vandað mjög til verka í þessu máli og ég tek undir orð fyrri ræðumanns, hv. þm. Marðar Árnasonar, að það sjónarmið kom líka réttilega fram að óþarfi væri að fjalla um málið í þinginu, það væri hægt að gera það á vettvangi ríkisstjórnarinnar.