145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

skýrsla um seinni einkavæðingu bankanna.

[14:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason fer hér undir liðnum fundarstjórn forseta með staðlausa stafi. Hann veit að þetta mál var skráð inn í nefndina 27. apríl sl. þar sem voru lagðir fram spurningalistar og öllum fulltrúum í nefndinni var boðið að leggja fram spurningar í tengslum við þetta mál. Þetta er mjög hættuleg þróun ef túlkun hv. þingmanns er rétt. Nú er það þannig eins og fram hefur komið að ekki er verið að fjalla um þetta með sömu efnistökum og hv. þm. Brynjar Níelsson gerði. Það hefur líka komið fram að nýjar upplýsingar hafa komið fram í tengslum við málið og allt tengist þetta hagsmunum skattgreiðenda. Ef hv. þingmaður er í alvöru að segja að sú nefnd sem á að hafa eftirlitshlutverk með fjármálum ríkisins megi ekki taka eitthvert mál, vegna þess að búið sé að taka einhver önnur mál og fjalla um einhverjar hliðar þess, þá er það mjög alvarlegt. Það er bara mjög alvarlegt, virðulegi forseti. Ég vona að sá dagur muni aldrei koma að sú túlkun verði uppi að hv. fjárlaganefnd megi ekki ræða mál sem tengjast (Forseti hringir.) hagsmunum skattgreiðenda.