145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:18]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil núna þegar komið er að lokum þessarar umræðu fyrst og síðast nota tækifærið til að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir góða vinnu við þennan mikilvæga og stóra samning. Umræðan var löng og á köflum nokkuð ströng en okkur tókst að skila þessu í hús þannig að allir voru sammála um að leggja til að þessi samningur yrði staðfestur að undanskildum fulltrúa Vinstri grænna sem skilaði séráliti.

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni góður samningur, feli í sér tækifæri fyrir landbúnaðinn og fyrir neytendur. Ég segi líkt og sumir aðrir hafa sagt í umræðunni á undan, ég held að íslenskur landbúnaður sé löngu tilbúinn að taka þátt í samkeppninni. Það er okkar sem sitjum í þessum sal að treysta honum og okkur sjálfum til þess.