145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[17:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð í upphafi að leyfa mér að vera ósammála þeirri fullyrðingu að gjaldtökumál í ferðaþjónustu séu endilega flokkspólitískt deilumál. Þetta er mál sem okkur hefur tekist að vera ósammála um, ekki bara í stjórnmálunum heldur úti í samfélaginu, um áratugaskeið.

Ég er líka ósammála hv. þingmanni með að þetta sé eitthvað sem muni, eins og hann orðaði það, tryggja fjármuni til uppbyggingar. Ég bendi á að það gistináttagjald sem við höfum núna, sem er sannarlega lágt, 100 kr. á hverja gistináttaeiningu, gefur í kringum 300 milljónir kr. Til samanburðar má nefna að aðeins virðisaukaskatturinn af kortaveltu erlendu ferðamannanna hér á landi jókst um 10 milljarða á milli áranna 2014 og 2015 og var 25 milljarðar árið 2015. Má ætla að þessi tala sé farin þó nokkuð upp á þessu ári.

Við eigum að skoða það sem við erum sammála um. Þar bendi ég á til að mynda á Vegvísi í ferðaþjónustu sem er sameiginleg stefnumörkun okkar, stjórnvalda og greinarinnar, með mikilli aðkomu sveitarfélaganna í landinu. Þar er eitt af áhersluverkefnum það sem ég held að við getum öll verið sammála um, að auka tekjur sveitarfélaga af ferðaþjónustu. Ég hef hins vegar verið ósammála þeim sem telja það best gert með gistináttagjaldinu. Ef við ætlum að fara að hækka það um þær upphæðir sem mundu skipta einhverju máli værum við komin út í of flókið og ómarkvisst skattkerfi sem ég er ekki talsmaður fyrir. Hins vegar erum við, og það verkefni er farið af stað á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála, að leita leiða til að auka (Forseti hringir.) tekjur og hlutdeild sveitarfélaganna í tekjum af ferðaþjónustunni. Það er verkefni sem allir eru sammála um að þurfi að sinna.