151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

orð þingmanns í störfum þingsins.

[11:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að hrósa hæstv. forseta fyrir að bregðast strax við. Það er nöturlegt að horfa upp á það að stjórnarþingmenn, ekki síst, með þessa ömurlegu hryggðarmynd í skoðunum varðandi réttindi kvenna skuli notfæra sér liðinn störf þingsins til að ráðast beinlínis að réttindum kvenna, ráðast að þingmönnum sem eru að flytja mikilvæg mál sem taka einmitt undir það að Ísland vill vera fremst í flokki þegar kemur að því að verja og styðja réttindi kvenna víða um heim.

Hér áðan nefndi ég hryggðarmyndina fyrir vestan haf. Við Íslendingar verðum að fara að gæta okkar á því að halda rödd okkar uppi hátt og skýrt þegar kemur að lýðræði og mannréttindum. Það er nákvæmlega það sem við erum að horfa upp á hér í dag að Sjálfstæðisflokkurinn, með Ásmund Friðriksson sem andstæðing réttinda kvenna til þungunarrofs, er að hasla sér völl í ríkari mæli í íslensku samfélagi. Gott og vel. (Forseti hringir.) En þá verður þeim líka mætt, þeim verður þá líka svarað sem eru með þessar skoðanir. (Forseti hringir.) Við munum ræða það síðar í dag, en ég vil hrósa hæstv. forseta fyrir að hafa brugðist hratt við og ég vona að hann komi þessum skilaboðum á framfæri við hv. þm. Ásmund Friðriksson.