135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[10:57]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá því að fyrstu lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru samþykkt frá Alþingi var skipuð nefnd til þess að endurskoða efni laga nr. 96/2000 undir forustu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara. Nefndina skipuðu fulltrúar þeirra þingflokka sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili en nefndin skilaði drögum að frumvarpi til þáverandi félagsmálaráðherra í mars sl. Ég legg mikla áherslu á að um þverpólitíska sátt er að ræða um efni frumvarpsins, sem byggist í meginatriðum á drögum sem nefndin skilaði af sér. Ákveðnar breytingar hafa þó verið gerðar þar sem m.a. er höfð hliðsjón af þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust ráðuneytinu í gegnum heimasíðu þess eða með öðrum hætti.

Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum sem að mínu mati eru til þess fallnar að færa okkur áfram í átt að auknu jafnrétti kvenna og karla og eru þar af leiðandi nauðsynlegar. Reynslan af eldri löggjöf um sama efni hefur fært okkur sannanir fyrir því að mikilvægt er að kveðið sé fastar að orði í lögum um réttindi og skyldur þeirra sem gæta eiga að jafnrétti kynjanna en gert hefur verið fram til þessa, hvort sem það er á vinnumarkaði eða á öðrum sviðum samfélagsins.

Í mínum huga er það t.d. algjörlega óásættanlegt að við lýði sé kynbundinn launamunur án þess að nokkuð sé að gert — fyrir utan aðgerðir ríkisvaldsins sem litlu hafa skilað, t.d. áminningar í formi bréfa til forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana og gerð veggspjalda þar sem minnt er á ákvæði jafnréttislaga. Staðreyndin er sú að bann við mismunun í launum karla og kvenna hefur verið í íslenskum lögum allt frá því árið 1961. Sá munur viðgengst þó enn og of margir líta á það sem óumbreytanlega staðreynd þar sem það er daglegt brauð að fá slíkar fregnir úr könnunum nokkrum sinnum á ári frá hinum ýmsu aðilum sem láta sig þessi mál varða.

Í því sambandi minni ég á að fyrrverandi félagsmálaráðherra kynnti hér á Alþingi fyrir rétt rúmu ári könnun á launamun kynjanna þar sem niðurstaðan var sú að ekkert hefði þokast í að jafna þann launamun út í heil tólf ár. Hér er því um algjöra stöðnun að ræða. Það er líka umhugsunarefni að könnun sem gerð var á viðhorfi íslenskra ungmenna á aldrinum 18–20 ára leiðir í ljós að í 8 tilfellum af 10 reikna karlar með hærri launum fyrir tiltekin störf en konur. Því er ljóst að mjög mikilvægt er að jafnréttis kynjanna sé gætt í skóla- og uppeldisstarfi og því starfi sé fylgt vel eftir. Er því lagt til með frumvarpi þessu að sérstakur jafnréttisráðgjafi starfi innan menntamálaráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Menn hefðu af því áhyggjur ef þessi væri raunin á fleiri sviðum samfélagsins þar sem löggjafarvaldið hefði látið málið til sín taka og lagt blátt bann við tiltekinni háttsemi. Væri þetta á öðru sviði mætti segja mér að menn hefðu ekki látið málið grassera í fleiri áratugi án þess að taka af hörku á hlutunum. Ég nefni sem dæmi samkeppnismálin og fjármálamarkaðinn. Þar hafa verið settar á laggirnar virkar eftirlitsstofnanir sem m.a. hafa heimild til að leggja á stjórnvaldssektir við brotum á þeim lögum sem þær eiga að hafa eftirlit með. Jafnréttismál eru mannréttindamál en þeim er sýnd fullkomin óvirðing ef eftirfylgni með þeim er virt að vettugi eða sett margfalt neðar í forgangsröðina um virkt eftirlit en t.d. samkeppnis- eða fjármálalöggjöfin. Þessu er brýnt að breyta og ég tel að tími sé kominn til að jafnréttislögin fái þann sess í samfélaginu að menn virði ákvæði þeirra og líti á þau sem mjög jákvæðan þátt í samfélagsþróuninni, bæði fyrir fjölskyldu- og atvinnulíf. Það á að vera keppikefli að ákvæðum jafnréttislaga sé framfylgt.

Það hlýtur að vera tilgangur okkar hér að setja lög með þeim hætti að farið sé eftir þeim í framkvæmd. Standa vonir mínar því til að frumvarp þetta sé þess efnis að það geti orðið liður í að styrkja okkur enn frekar í baráttunni fyrir því að koma á jöfnum rétti kynjanna í íslensku samfélagi, sem hefur tekið ótrúlega langan tíma. Svo að það megi verða er lagt til að Jafnréttisstofu verði veittar ríkari heimildir til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna að viðlögðum dagsektum, að hámarki 50 þús. kr. á dag, í vissum tilvikum. Til samanburðar má nefna að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi geta dagsektir numið allt að einni milljón króna á sólarhring þannig að þetta hljóta að teljast sanngjarnar sektir. Er m.a. gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa fái frekari eftirlitsheimildir með gerð jafnréttisáætlana eða samþættingu kynjasjónarmiða í starfsmannastefnu hjá fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn. Enn fremur er lagt til að þessi fyrirtæki og stofnanir geri sér framkvæmdaáætlun um hvernig fylgja beri jafnréttisáætlun eftir, eða eftir atvikum samþættingu kynjasjónarmiða, í starfsmannastefnu. Er við það miðað að þessi fyrirtæki og stofnanir afhendi afrit af jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu ásamt framkvæmdaáætlunum óski Jafnréttisstofa eftir því.

Ákvæði um gerð jafnréttisáætlana eða samþættingu kynjasjónarmiða í starfsmannastefnu hafa verið í lögum frá árinu 2000 en það verður að teljast ágætur aðlögunartími fyrir fyrirtæki og stofnanir til að laga sig að breyttum áherslum áður en virku eftirliti verður komið á. Það er jafnframt ekki að ástæðulausu að slík eftirlitsúrræði eru lögð til þar sem reynslan hefur verið sú að ekki hafa öll þau fyrirtæki og stofnanir sem í hlut eiga gert sér slíkar áætlanir. Tölum úr könnunum ber ekki saman um hversu mörg fyrirtæki og stofnanir hafi gert sér slíkar áætlanir en þær sem hafa sýnt bestu niðurstöðurnar sýna að rétt rúmlega helmingur hefur gert það. Enn fremur hafa fyrirtæki því miður ekki virt það þegar Jafnréttisstofa hefur leitað til þeirra um upplýsingar á grundvelli gildandi laga. Sem dæmi nefni ég könnun sem félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa stóðu fyrir meðal fyrirtækja og stofnana með fleiri en 25 starfsmenn á árinu 2004. Samtals tóku 146 fyrirtæki og stofnanir þátt í könnuninni af þeim 887 sem leitað var til eða um 16,5%. Mér sýnist því ekki vanþörf á að komið sé á virku eftirliti með framkvæmd laga um jafnrétti kynjanna.

Að mínu mati eru jafnréttisáætlanir góð tæki sem fyrirtæki og stofnanir ættu að nýta sér til að koma á jafnrétti kynjanna innan sinna raða. Slíkar áætlanir eru vel til þess fallnar að greina stöðuna á vinnustöðunum, setja sér markmið í átt að frekara jafnrétti og leita lausna á þeim vandamálum sem fram koma. Jafnréttisáætlanir eru ekki óþörf plögg og það er ekki tímasóun að setja hana á blað, sem virðist vera nokkuð útbreiddur misskilningur manna á meðal. Fyrirtæki sem ná árangri setja sér markmið og gera áætlanir til að ná þeim fram. Það er því rökrétt að áætlunum um hvernig ná eigi jafnréttismarkmiðum sé fylgt. Það er ekki síður ávinningur fyrirtækjanna sjálfra en einstaklinganna að við náum þeim árangri.

Fyrir stuttu sat ég fund norrænna jafnréttisráðherra í Finnlandi. Á þeim fundi kynnti framkvæmdastjóri Norrænu rannsóknastofnunarinnar í kynjafræðum niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem sýnir að fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja í Finnlandi hefur áhrif á afkomu fyrirtækjanna. Rannsóknin sýnir að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla en þessi rannsókn náði til 14 þúsund fyrirtækja, þ.e. allra fyrirtækja í Finnlandi með fleiri en tíu starfsmenn. Þetta kemur heim og saman við rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum þar sem fram kom að þar sem konur stjórna er afkoma fyrirtækja betri og arðsemi eigin fjár meiri.

Í frumvarpinu eru Jafnréttisstofu veittar auknar heimildir til öflunar gagna hjá fyrirtækjum og stofnunum þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um brot á lögunum og þá eingöngu í þeim tilgangi að meta hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Er hlutaðeigandi þá skylt að afhenda Jafnréttisstofu umbeðin gögn innan hæfilegs frests en verði ekki orðið við þeirri beiðni er stofnuninni heimilt að leggja á dagsektir þar til gögnin verða afhent.

Eitt af lykilatriðunum í þeim nýmælum sem finna má í frumvarpinu er að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði gerðir bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður. Með því er niðurstöðum nefndarinnar gefið meira vægi og aukast þá líkur á að farið sé eftir þeim. Þessi framkvæmd hefur verið við lýði annars staðar á Norðurlöndunum og nefni ég Danmörku og Noreg sem dæmi en þar er talið að þessi háttur hafi skipt miklu máli. Enn fremur vil ég minna á að íslensk stjórnvöld hafa fengið athugasemdir frá sérfræðinganefndinni sem starfar á grundvelli samnings um afnám allrar mismununar gegn konum um það efni að ákvarðanir kærunefndar séu ekki bindandi. Það er jafnframt mat mitt að þýðingarmikið sé að Jafnréttisstofu séu færðar heimildir til að fylgja því eftir að aðilar sem úrskurðir kærunefndarinnar beinast að fari að niðurstöðum nefndarinnar komi um það beiðni frá aðila máls. Mun Jafnréttisstofa þá eftir því sem við á gefa út fyrirmæli um viðunandi úrbætur í samræmi við niðurstöður kærunefndarinnar að viðlögðum dagsektum verði ekki farið að fyrirmælum innan hæfilegs frests. Má segja að þessi heimild Jafnréttisstofu komi í stað þeirrar heimildar sem stofan hefur, samkvæmt gildandi lögum, um að fylgja eftir álitum kærunefndar fyrir almennum dómstólum við tilteknar aðstæður.

Samhliða því að kærunefnd jafnréttismála verði efld er jafnframt gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa hafi það verkefni að leita sátta í ágreiningsmálum sem stofunni berast og varða ákvæði laganna. Er kærunefndinni heimilt, að höfðu samráði við málshefjanda, að senda mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu. Rétt þykir að leggja til slíka málsmeðferð enda má gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum geti það leitt til skjótari niðurstöðu án þess að rýra rétt málshefjanda. Verður að teljast mikilvægt að gefa aðilum máls kost á því að leita sátta í málum sín á milli á grundvelli laganna með atbeina stjórnvalds.

Virðulegi forseti. Ég hef lengi verið talsmaður þess hér á þinginu að afnema beri svokallaða samningsbundna launaleynd. Það er því mikilvægt fyrir mig að geta kynnt hér frumvarp sem ætlað er að tryggja launafólki þann rétt að geta ávallt skýrt frá launakjörum sínum ef það kýs að gera það. Ég tel það mikilvægt skref í að útrýma kynbundnum launamun. Það er mat margra að launamisrétti þrífist mjög vel í skjóli launaleyndar enda komast þá stjórnendur eða aðrir þeir sem ákvarða launin hjá óþægilegum útskýringum á hugsanlegum launamun milli karla og kvenna á vinnustaðnum, þeir geta jafnvel staðið keikir og fullyrt að kynbundinn launamunur sé ekki innan fyrirtækis þeirra. Þeir eiga ekki á hættu að starfsfólk upplýsi um launakjör sín þar sem það væri brot á ráðningarsamningi þess. Það er hins vegar deginum ljósara að sá munur sem kannanirnar mæla á launum karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði liggur ekki síst í launaleynd og í ýmsum kaupaukum og duldum greiðslum sem ekki koma upp á yfirborðið og það viljum við uppræta.

Það hefur jafnframt verið skoðun mín að hið opinbera skuli ganga á undan með góðu fordæmi við að koma á jafnrétti kynjanna, bæði sem vinnuveitandi og stefnumótandi aðili á svo mörgum sviðum. Í því efni tel ég mikilvægt að byrja á Stjórnarráðinu sjálfu. Það er ólíðandi að forstöðumenn opinberra stofnana eða forráðamenn ráðuneyta mismuni konum og körlum í launum og brjóti þannig jafnréttislög. Ég legg því mikla áherslu á að innan sérhvers ráðuneytis starfi sérstakur jafnréttisfulltrúi sem hafi sérþekkingu á jafnréttismálum. Styrkja þarf það starf sem fyrir er í ráðuneytunum á þessu sviði og mun ég beita mér fyrir því að svo verði gert á þessu kjörtímabili. Jafnframt verður tryggt fjármagn til að tryggja stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, hvort sem það verður gert með fjölgun stöðugilda eða breytingu á starfshlutfalli þeirra sem fyrir eru til hækkunar. Jafnréttisfulltrúum er m.a. ætlað að vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis en nánar er kveðið á um þá skyldu stjórnvalda í frumvarpinu. Þetta er þýðingarmikið atriði svo að tryggja megi jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi en mikilvægt er að kynjasjónarmiða sé gætt við alla stefnumótun og áætlunargerð innan stjórnsýslunnar og ekki hvað síst við gerð fjárlaga. Við þurfum að taka okkur verulega á á þessu sviði. Ég tel að þetta ákvæði geti verið grunnur að því starfi sem fram undan er til að ná fram markmiðum frumvarpsins að þessu leyti.

Liður í þeim aðgerðum er m.a. að tryggja enn frekar en áður jafnara kynjahlutfall þeirra sem koma að stefnumótun og ýmiss konar undirbúningsvinnu eða ákvörðunum sem teknar eru á vegum stjórnvalda og varða daglegt líf okkar flestra. Þar á ég við kynjahlutföllin í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera en eins og við vitum öll sem hér sitjum þarf að gæta að þessu markmiði laganna enn betur en gert hefur verið. Kynjahlutfallið í nefndum, ráðum og stjórnum hjá hinu opinbera hefur síðastliðið ár verið um 32% konur og 68% karlar. Þær tölur segja hins vegar ekki alla söguna þar sem sum ráðuneytanna standa sig mjög vel og hafa náð settum markmiðum en önnur eru enn með karlana í miklum meiri hluta innan sinna vébanda. Þess eru dæmi að karlar séu allt að 95% nefndarmanna. Ég geri mér grein fyrir að þetta breytist ekki á einni nóttu en ráðherrar og aðrir skipunaraðilar verða að setja sér markmið og fylgja þeim markvisst eftir svo að árangur náist í þessum efnum. Þetta er þriðja dæmið sem ég nefni í dag þar sem ekki hefur verið farið að jafnréttislögum þrátt fyrir að skýr lagaákvæði hafi verið fyrir hendi í langan tíma og það hjá hinu opinbera.

Hin dæmin varða kynbundinn launamun og gerð jafnréttisáætlana. Ég legg því til að þetta ákvæði laganna verði styrkt enn frekar en verið hefur, m.a. með því að leggja til að tilnefningaraðilar tilnefni ávallt bæði karl og konu þegar óskað er tilnefningar í opinberar nefndir, ráð og stjórnir. Það er svo sem óþarfi að fjölyrða um það hér en að sjálfsögðu mælist ég til þess að tilnefningaraðilar virði þetta ákvæði verði það óbreytt að lögum.

Enn fremur er lagt til breytt hlutverk jafnréttisráðs. Gert er ráð fyrir að ráðið verði í nánari tengslum við Jafnréttisstofu en verið hefur í tíð gildandi laga og verði ráðgefandi bæði við félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Er við það miðað að ráðið fjalli ekki eingöngu um málefni vinnumarkaðarins, enda þótt þar sé enn víða pottur brotinn þegar kemur að jafnrétti kynjanna, heldur fjalli um jafnréttismál í víðara samhengi. Það þótti því mikilvægt að fulltrúar fleiri hópa ættu sæti í jafnréttisráði og þá sérstaklega fulltrúar þeirra samtaka sem hafa látið sig varða málefni kvenna er sæta kynbundnu ofbeldi.

Það er jafnframt nýmæli í þessu frumvarpi að Jafnréttisstofa vinni að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök er sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Ég tel að við getum öll verið sammála um að við þurfum að beita öllum ráðum til að komast yfir það mein í samfélagi okkar sem kynbundið ofbeldi er áður en við getum farið að tala um að jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Við verðum jafnframt að gæta þess að jafnréttisumræða nái til sem flestra landsmanna og að flestir sjái sér fært að taka virkan þátt í umræðunni um þessi mikilvægu mál sem varða hagsmuni okkar allra. Er því lagt til að reglulega verði boðað til sérstaks jafnréttisþings þar sem ætlunin er að skapa þeim sem vilja fjalla um jafnrétti sérstakan vettvang. Er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra leggi fram skýrslu sína um stöðu og þróun jafnréttismála við upphaf þingsins og getur hún þá orðið grunnur að gagnlegum umræðum um hver raunveruleg staða jafnréttismála er hverju sinni.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að frumvarp þetta leiði til 33–37 millj. kr. útgjalda fyrir ríkissjóð á ári auk þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til að styrkja stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, eða í heild um 60 millj. kr. Er þetta til marks um að hugur fylgir máli, okkur er full alvara með þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu. Til samanburðar má benda á að við framlagningu fyrri frumvarpa um þessi mál hefur verið gert ráð fyrir innan við 1 millj. kr. aukningu á útgjöldum fyrir ríkissjóð en hér er gert ráð fyrir 60 millj. kr. útgjaldaaukningu.

Virðulegi forseti. Ég bind miklar vonir við að efni þessa frumvarps komi til með að flytja okkur fram veginn í átt að jafnrétti kynjanna. Þau lög sem hafa verið í gildi fram til þessa hafa ekki skilað fullnægjandi árangri enda þótt ég sé ekki í vafa um að þau hafi átt sinn þátt í því að jafnrétti hafi aukist í hænuskrefum hér á landi í tímans rás. Það er hins vegar kominn tími til að stíga stór skref fram á við í þessari baráttu og ég tel að nýmæli frumvarpsins hafi það fram að bjóða. Ég legg því mikla áherslu á að frumvarpið fái málefnalega umræðu og hljóti afgreiðslu sem allra fyrst á þessu þingi.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og tryggingamálanefndar.