145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki að svara þessu einn, tveir og þrír með þetta atriði. Það er auðvitað mikilvægt að sáttmálinn sé í íslenskri þýðingu, ef við byrjum þar. En ef um er að ræða villur eða ónákvæmni í þýðingu þá er það bara verkefni sem þarf að vinna. Ég hef sjálf ekki sannreynt það til þess að geta haft sjálfstæða skoðun á því. En ég held að almennt sé það þannig að opinber gögn þurfi að endurspegla raunveruleikann og raunverulegan texta. Þannig að ég tek þetta bara með mér frá hv. þingmanni inn í ráðuneytið og í þá áframhaldandi vinnu sem þar er um að ræða. Hvort þetta eru hreinlega rangar þýðingar eða mismunandi viðhorf til ákveðinna þýðingarefna — ég kann ekki að fara lengra út í það á þessu stigi málsins.

Við munum að sjálfsögðu skoða það og halda áfram að vinna þetta mikla verk sem er, eins og hv. þingmaður veit náttúrlega mjög vel sjálf, feikilega umfangsmikið og skiptir máli að vel takist til.

Ég vil ítreka það sem ég hef sagt hér að við í innanríkisráðuneytinu höfum haft þetta mál mjög nálægt okkur í þeirri vinnu sem við erum að sinna hér og mikilvægt fyrir okkur að koma þessu frumvarpi sem fyrst inn í þingið svo að það lendi nú ekki í því sem það lenti í síðasta vor að verða eftir við þinglok. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp fáist samþykkt og ég trúi að þingið sé sama sinnis og ég í því efni.