150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

nýbygging Landsbankans.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki bara til greina heldur er hlutverk Bankasýslunnar að sjá til þess að farið sé vel með þá fjármuni sem Landsbankanum er treyst fyrir, að Landsbankinn fylgi þeirri eigendastefnu sem fyrirtækinu hefur verið sett. Að sjálfsögðu kemur til greina að veita fjármálafyrirtæki í gegnum eftirlitsstofnanir það aðhald sem nauðsyn krefur, en í þessu tiltekna máli hef ég ekki á nokkru stigi komið að einni einustu ákvörðun. Verkefnið sem hér er verið að kalla eftir að ég sinni er vistað í annarri stofnun þar sem svo skýrar reglur gilda að um það er fjallað sérstaklega í lögum hvaða afskipti ráðherrann má hafa af stofnuninni. Það ætti kannski að vera mönnum til umhugsunar, sem kalla eftir því að pólitísk afskipti séu höfð af rekstrarákvörðunum fjármálafyrirtækja, að skoða þessar reglur að nýju. Ég hef ekki verið talsmaður þess að viðskiptabankar eða einstaka rekstrarákvarðanir þeirra eða fjárfestingarákvarðanir séu teknar á pólitískum forsendum og ég mun ekki verða talsmaður þess.