150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

búvörulög og búnaðarlög.

163. mál
[15:40]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, og búnaðarlögum (verðlagsnefnd búvara, undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga, verðjöfnunargjöld). Ég vil draga það fram að við erum að endurflytja þetta frumvarp en það var flutt áður á 149. löggjafarþingi, 17. mál. Þá gekk frumvarpið til atvinnuveganefndar þann 25. október 2018. Ég ætla aðeins að fara yfir það á eftir þegar ég er búin að fara yfir helstu markmið og tilgang frumvarpsins hvað það er með miklum ólíkindum að málið fáist ekki a.m.k. afgreitt út úr nefnd þannig að við getum tekið afstöðu til þess hér inni á þinginu. En gott og vel.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kom m.a. fram að frumvarpið miðaði að því að efla samkeppni í landbúnaði og veita bændum frelsi til að hafa val um hvernig afurðum þeirra væri ráðstafað. Það myndi leiða til aukinnar samkeppni á vinnslu-, heildsölu- og smásölumarkaði. Jafnframt er bent á að nýsköpun og samkeppni eigi samleið og geti ekki hvor án annarrar verið. Markmiðið með frumvarpinu er alveg skýrt, það er að auka frelsi og sjálfræði framleiðenda búvara til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Í því felst m.a. að afnema sérreglu búvörulaga sem gildir um mjólkuriðnaðinn og draga úr afskiptum ríkisvaldsins af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu búvara.

Í gildandi lögum hafa bændur sérstaka stöðu sem helst verður líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Til að stuðla að bættum kjörum bænda þarf að búa til regluverk sem gerir bændum kleift að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir. Þannig verði bændum gert fært að starfa sem atvinnurekendur og njóta kosta þess að reka bú sín á opnum markaði. Í frumvarpi þessu er því lagt til að verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga verði lagðar niður og þannig stuðlað að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun verði í samræmi við almenn markaðslögmál, nokkuð sem enginn einstaklingur eða fyrirtæki á að vera hrætt við. Jafnframt er lagt til að felld verði niður heimild til að gera fyrirframákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva eða um einstakar framleiðsluvörur.

Enn fremur, virðulegi forseti, er lagt til að felld verði niður heimild afurðastöðva samkvæmt 71. gr. búvörulaga til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli afurða fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 85/2004, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Á þeim tíma einkenndi fjárhagsvandi flest svið landbúnaðarins sem aðallega var til kominn vegna óhagstæðra rekstrareininga og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til þess að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara. Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað og mikil hagræðing átt sér stað í þau 15 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum. Til að tryggja samkeppni á mjólkurmarkaði og stuðla þannig að nýsköpun og vöruþróun er nauðsynlegt að vinnsluaðilum sé tryggður aðgangur að hrámjólk/ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.

Hafa undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum verið umdeildar og fyrir liggja fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim sem og álit annarra á borð við Viðskiptaráðs. Með þessu frumvarpi er lagt til að veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum, sem um hafa gilt sérákvæði, verði afnumdar. Verði frumvarpið að lögum er verið að leysa helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum í búvörulögum. Með frumvarpinu er verið að að láta almennar samkeppnisreglur gilda um allan mjólkurmarkaðinn, að afnema allar sérreglur í þágu hins stóra.

Þá er lagt til að felld verði brott heimild til verðjöfnunar samkvæmt 85. gr. A búvörulaga í samræmi við ákvörðun ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í desember 2015 um að afnema útflutningsbætur.

Frumvarpið er samið með hliðsjón af gildandi lögum og reglum í nágrannalöndum Íslands. Í skuldbindingaskrá Íslands að GATT-samningnum er kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að veita þjónustuveitendum frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar aðgang að markaði sínum. Þar er jafnframt kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að hafa ekki í gildi reglur sem fela í sér mismunun sem sé innlendum þjónustuveitendum í hag gagnvart erlendum þjónustuveitendum. Niðurstaða ráðherrafundar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í desember 2015 felur í sér pólitíska skuldbindingu um að afnema útflutningsbætur. Felur ákvörðunin ekki í sér lagalega skuldbindingu en ef ekki er brugðist við ákvörðuninni er talið líklegt að ómögulegt verði að ná saman um staðfestingu nauðsynlegra og formlegra breytinga á landbúnaðarsamningnum. Er því lagt til í frumvarpi þessu að heimild til útflutningsbóta í formi verðjöfnunargjalda verði felld brott.

Virðulegi forseti. Frumvarpið skiptist í tvo kafla, annars vegar breytingar á ákvæðum búvörulaga og hins vegar á ákvæðum búnaðarlaga. Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á tilgangi búvörulaga þar sem skerpt er á mikilvægi frjálsrar samkeppni í landbúnaði. Í kaflanum er jafnframt mælt fyrir um að framleiðendur búvara fari að meginreglu með eigið fyrirsvar við gerð samninga á grundvelli laganna en þeim sé þó heimilt annaðhvort að fela Bændasamtökum Íslands að fara með fyrirsvar sitt eða stofna önnur samtök í þeim tilgangi. Þá er fellt brott ákvæði laganna um að samningar skuli vera bindandi fyrir framleiðendur viðkomandi búvara hvort sem þeir eru félagar í Bændasamtökum Íslands eða standa utan þeirra og í staðinn kveðið á um að samningar á grundvelli laganna séu aðeins bindandi fyrir þá framleiðendur sem teljast aðilar að hverjum samningi fyrir sig.

Þá eru í kaflanum nokkrar orðalagsbreytingar sem miða að því að jafna stöðu allra búvöruframleiðenda, sama hvort þeir tilheyra Bændasamtökum Íslands eða öðrum samtökum eða standa einfaldlega utan samtaka. Þá eru einnig felld brott öll ákvæði um verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga sem er að vissu leyti barn síns tíma. Tilgangurinn með því er að draga úr miðstýringu verðmyndunar og auka sjálfstæði bænda sem framleiðenda á markaði. Með því að leggja niður verðlagsnefnd búvara verður einnig unnið að því að gera styrkjakerfi landbúnaðarins mun gagnsærra. Samhliða breytingunni er jafnframt rétt að koma á fót beinum styrkjum til bænda, sem stuðli að aukinni nýsköpun og betri nýtingu lands og gæða.

Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði um framkvæmdanefnd búvörusamninga verði fellt brott og lagðar til breytingar sem draga úr sérstöðu Bændasamtaka Íslands sem fyrirsvarsaðila búvöruframleiðenda í samningaviðræðum og samskiptum við ríkið. Í 14. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um aukinn stuðning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og ríkissjóðs við umhverfisvernd, nýliðun, skógrækt, lokun framræsluskurða, gerð smávirkjana og þróun á sviði ferðaþjónustu.

Verði frumvarp þetta að lögum er rétt í framhaldinu að hefja vinnu við sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknarsjóðs um aukið virði sjávarfangs í sameiginlegan og öflugan matvælasjóð. Slík breyting yrði til þess fallin að spara kostnað við yfirstjórn, en hann var um 30 millj. kr. a.m.k. fyrir tveimur árum, sem nýta mætti beint í styrki til nýsköpunar í matvælageiranum, ekki síst í nýsköpun hjá bændum.

Umræddar breytingar eru viðamiklar en að mati flutningsmanna frumvarpsins til þess fallnar að bæta hag íslenskra bænda og stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði, bændum og neytendum öllum að sjálfsögðu til heilla. Það er farið eftir því grundvallarprinsippi að draga fram og ýta undir almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Það er verið að horfast í augu við breyttan veruleika. Það getur verið að umhverfið eins og það er núna hafi verið réttmætt og rétt að rökstyðja það á sínum tíma en það er ekki lengur svo. Breytingar á samfélaginu, aðrar kröfur, umhverfiskröfur, loftslagskröfur, betri nýting lands og gæða — allt ýtir undir að við reynum að stuðla að því að styrkja bændur á nýjum forsendum. Ekki til þess að halda uppi ákveðnu einokunarfyrirkomulagi mjólkurmarkaði. Það er algerlega úrelt fyrirkomulag.

Það er auðvitað umhugsunarefni, herra forseti, að við fengum þetta mál inn í atvinnuveganefnd á síðasta hausti, þann 25. október eins og ég gat um áðan. Það var enginn vilji til þess að fjalla um málið, hvað þá að það kæmi hingað inn í þingið til afgreiðslu. Það er nokkuð sem við þurfum að gera oftar, að fá mál hingað til afgreiðslu. Þá er það bara þannig, eins og gerðist sl. vor, að þingmál frá okkur í Viðreisn um að leggja niður mannanafnanefnd var fellt. Hér kinka þingmenn Sjálfstæðisflokksins kolli og eru mjög sælir yfir því að hafa fellt mannanafnanefndarfrumvarpið. En ég held að það sé að því leytinu til ágætt að þá koma fram ýmis sjónarmið. Þó að ég gráti það að hafa ekki fengið frumvarpið í gegn dregur það líka fram ákveðna pólitíska sýn, pólitískar línur. Ég hefði gjarnan viljað fá þetta mál fram til þess að til að mynda þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengju tækifæri til að sýna í verki að þeir styðji almennar samkeppnisreglur, að þeir styðji það að markaðurinn ráði, að þeir styðji það að ekki verði einokunarfyrirkomulag á Íslandi á 21. öld þó að einhver kynni að réttlæta það að á fyrri hluta 20. aldar hafi það átt rétt á sér. En ekki á 21. öld og ekki í samræmi við til að mynda landsfundarályktanir þessa sama flokks. Maður upplifði það innan atvinnuvega- og nýsköpunarnefndar að það væri frekar verið að reisa girðingar af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, byggja múra og reyna að finna einhverjar leiðir eins og t.d. varðandi sérostana þar sem var frekar bætt í hindranir, frekar bætt í varðandi það að opna ekki markaðinn. Það er auðvitað með ólíkindum sé haft í huga hvaða grunnprinsipp eiga að vera viðloðandi hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ég vil líka draga fram tvö atriði í viðbót. Hv. þm. Inga Sæland brosir fallega. Ég skil það vel. Ég vil draga sérstaklega fram kosti og galla EES-samningsins. Við erum búin að fara vel yfir kosti og galla EES-samningsins og sérstaklega staðreyndir um hvað hann hefur haft í för með sér, staðreyndir um jákvæðar afleiðingar hans á sl. 25 árum fyrir íslenskt samfélag. Hann hefur aukið samkeppni, aukið nýsköpun, stutt við sprotafyrirkomulag hérna heima og stutt við sprotafyrirtæki, opnað eitthvað sem hefði ella leitt til stöðnunar, eins og segir m.a. í góðri skýrslu um EES-samninginn sem skilað var fyrr í vikunni og við ræddum í utanríkismálanefnd í gær. Þess vegna er áhugavert að sjá þau svið sem eru ekki undir EES-samningnum. Hvað gera íslensk stjórnvöld þá? Hvað gera íslenskir stjórnmálaflokkar, þessi gömlu? Þeir viðhalda náttúrlega sérreglum þar sem aðhaldið frá EES-samningnum er hvergi til staðar um opnun markaða, um frelsið. Þá er eins og við manninn mælt að afturhaldsfyrirkomulagi, einokunarfyrirkomulagi, sérreglufyrirkomulagi er viðhaldið. Þetta mál og fyrirkomulagið í mjólkuriðnaði er einmitt gott dæmi um það hvað EES-samningurinn er okkur mikilvægur því að ef aðhaldið frá honum er ekki fyrir hendi fara menn sérregluleiðina, þá ýta menn ekki undir almennar reglur samkeppnislaga. Þetta er gott dæmi um það.

Varðandi þær áhyggjur sem hafa komið fram af hálfu bænda vil ég sérstaklega draga fram að ég er sannfærð um að hvar sem borið er niður þar sem almennar reglur samkeppnislaga ríkja, þar sem markaðurinn fær að njóta sín, þar blómstra hlutirnir. Þá sprettur fram nýsköpun, þá spretta fram alls konar hugmyndir, sköpun, sprotafyrirtæki. Það sjáum við ekki síst í landbúnaðarsamfélaginu. Við sjáum hvað er að gerast m.a. hjá grænmetisbændum sem búa kannski við hvað mesta frelsið og mestu samkeppnina. Mesta nýsköpunin er einmitt þar. Grænmetisframleiðsla hefur blómstrað og rutt sér braut á sl. fimm til tíu árum undir forystu grænmetisbænda. Það er gott dæmi um það hvernig við Íslendingar kunnum að bregðast við þegar samkeppni og opinn markaður er annars vegar.

Búvörusamningurinn er um 16 milljarðar, uppfærður kannski 18 milljarðar, ég man ekki nýjustu tölurnar í fjárlagafrumvarpinu. Með óbeinum og beinum styrkjum, þ.e. tollverndinni og fleira, eru styrkir til landbúnaðarins kannski um 35 milljarðar. Við í Viðreisn teljum og ég vil að við íhugum að setja þann styrk beint til bænda en á móti verði allri tollvernd aflétt og allar sérreglur afnumdar gegn því að þessir styrkir, þ.e. 35 milljarðar í beinum og óbeinum styrkjum í dag, renni inn í búvörusamning til bænda með skilyrði um landnýtingu. Þetta renni ekki til framleiðsluhvata heldur hafi bændur sjálfir val um hvernig þeir nýti landið. Við treystum engum betur en bændum til að fara í slíka hluti. Ég tel að það væri spennandi hugsun og ég vona að Bændasamtökin og ýmsir bændur rísi ekki upp á afturlappirnar og segi nei. Eigum við ekki frekar að skoða þetta? Við í Viðreisn viljum styðja við og styrkja bændur. Ég tel að með þeim tillögum sem við erum að ræða hér og líka með því að fara í uppstokkun og breytingar á styrkjakerfinu gegn því að fyrirkomulagið verði opnað og tollverndin afnumin og styrkir settir beint til bænda í staðinn værum við komin með grundvöll sem ég held að væri þess virði að ræða upp á framtíðina, upp á nýsköpun, upp á einmitt lífsmöguleika og umhverfi bænda til skemmri og lengri tíma.

En það er auðvitað efni í aðra umræðu. Þetta mál er í rauninni ósköp einfalt. Það er verið að afnema sérreglur í landbúnaði. Tillagan felur í sér að ýta undir að almannahagsmunir verði dregnir fram á mjólkurmarkaði eins og alls staðar annars staðar í samfélaginu, að slíkar reglur eigi að gilda, að almennar reglur samkeppnislaga gildi framar sérreglum búvörulaga.