145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst ríkt tilefni að koma hér upp líka á þessum tímapunkti þegar þingfundi er um það bil að ljúka og starfsáætlun er að ljúka, bara til að minna hæstv. forseta á þá stöðu sem er í þinginu, að við erum sem sagt að halda eitthvað út í óvissuna með þingið, við erum ekki með neina starfsáætlun. Menn tala oft í pólitík um nauðsyn þess að sýna forustu og stöðugleika, reyna að styrkja stöðugleikann og þar fram eftir götunum. Hér erum við að horfa upp á átakanlegt dæmi um það hvernig mönnum getur alveg fullkomlega mistekist þetta verkefni. Við vitum ekkert hvernig næsta vika verður.

Það er alveg ótrúlega athyglisvert hvað núverandi meiri hluta er það um megn að gera einhverja áætlun fyrir þingið og sú umræða sem á sér stað núna sýnir bara að þessum þingmeirihluta er um megn að gera áætlanir yfir höfuð. Sú áætlun sem við ræðum hérna núna er aftur í tímann. Kannski er ríkisstjórnarmeirihlutinn reiðubúinn að gera einhverja starfsáætlun fyrir þetta þing (Forseti hringir.) aftur í tímann.