139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

351. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1610 frá hv. viðskiptanefnd um frumvarp til laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.

Seint í gærkvöldi varð nokkur umræða um þær breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki um fjármálakerfið á Íslandi í kjölfar hrunsins og í þessu máli er enn eitt dæmi um það. Hér er verið að leggja fram nýtt frumvarp sem tekur á heildarlöggjöf um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Megintilgangur frumvarpsins er að skýra og afmarka það regluverk sem gildir um starfsemi sjóða sem eru settir um sameiginlega fjárfestingu, auk þess sem hér er um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins 2007/16/EB/ um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.

Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru að skilyrði fyrir afturköllun á staðfestingu verðbréfa- og fjárfestingarsjóðs verði rýmkuð, auk þess sem ráðherra verði veitt heimild til þess að kveða á í reglugerð um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs og um upplýsingagjöf til viðskiptavina um hana.

Ég þarf væntanlega ekki að minna hv. þingmenn á þær umræður sem urðu um peningamarkaðssjóði Landsbankans á síðustu vikunum fyrir hrun og ég tel að með frumvarpinu sé meðal annars verið að bregðast við þeim alvarlegu og réttmætu athugasemdum sem komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis um fjárfestingarstefnu þeirra og upplýsingar um hana. Auk þess eru í frumvarpinu gerðar auknar kröfur um hæfi framkvæmdastjóra rekstrarfélaga, um hæfi sjóðstjóra sjóða og stjórnarmanna rekstrarfélaga. Heimildir um fjárfestingar í fjármálagerningum tengdra aðila eru þrengdar, auknar kröfur gerðar um upplýsingagjöf sjóðanna, auk þess sem fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru þrengdar. Allt eru þetta atriði, herra forseti, sem mikið voru til umræðu og ég hygg að í rannsóknarskýrslu Alþingis sé fjallað um skort á því regluverki sem hér er verið að setja á allmörgum síðum, og eðlilega.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og undir nefndarálitið skrifa eftirtaldir hv. þingmenn, auk þeirrar sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, með fyrirvara, Valgerður Bjarnadóttir, Björn Valur Gíslason, Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara, Skúli Helgason og Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara.

Frú forseti. Hv. viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru á sérstöku þingskjali, á þskj. 1611. Þar er ekki, frú forseti, um meginbreytingar á efnisgreinum frumvarpsins að ræða. Nefndarálitið er allítarlegt, á hátt í fimm blaðsíðum, og ég hygg að hv. þingmenn hafi haft tök á að kynna sér það vel. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.