138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmannanefnd Alþingis og öllum þeim níu nefndarmönnum sem þar störfuðu fyrir mikla vinnu og góða. Ég tel að sú skýrsla sem þingmannanefndin hefur skilað af sér sé mjög gagnleg og mikilvæg fyrir það umbótastarf sem þingheimi ber að fylgja eftir á komandi mánuðum og missirum. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að ég tel að það sé afar mikilvæg niðurstaða þingmannanefndarinnar að hún tekur undir meginniðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um að allir helstu ábyrgðaraðilar í stjórnkerfinu hafi brugðist, bæði löggjafarsamkoman, ríkisvaldið, eftirlitskerfið, fjármálamarkaðurinn, fjölmiðlar o.s.frv.

Þessi staðreynd lætur kannski lítið yfir sér, að þingnefndin taki undir meginniðurstöður rannsóknarnefndarinnar, en ég tel að hún beri vott um að við erum að hreyfast í rétta átt. Þetta ber vott um sjálfsgagnrýni og undirliggjandi er sú staðreynd að þrír af þeim stjórnmálaflokkum sem hafa komið að stjórn landsins á undanförnum árum horfast í augu við að þeir gerðu mistök á þessum tíma og viðurkenna það.

Ég ætla að nota tíma minn eða næstu mínútur til að fjalla sérstaklega um eitt atriði sem rannsóknarnefndin og þingmannanefndin tóku til umfjöllunar, sem er stjórnmálamenningin í landinu, og þá einkum út frá tveimur grundvallaratriðum sem ég tel að gangi eins og rauður þráður í gegnum sorgarsögu síðustu ára, sem er annars vegar þöggun og hins vegar meðvirkni. Það er ein meginniðurstaða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem þingmannanefndin tekur undir, að íslensk stjórnvöld hafi sofið á verðinum gagnvart allt of stóru bankakerfi og tækifæri til að afstýra hruni hafi gengið mönnum úr greipum þegar á árinu 2006. Eða eins og segir í 1. bindi skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra.“

Í bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, er fjallað um tilvik í lok marsmánaðar árið 2006 sem hefði átt að hringja öllum viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum og verða tilefni tafarlausra aðgerða til að minnka umfang bankakerfisins með öllum tiltækum ráðum. Fundurinn var haldinn í kjölfar þess að Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, hringdi í Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, og tilefnið var það að einn viðskiptabankanna stóð frammi fyrir verulegum erfiðleikum vegna kröfu lánardrottins um að hann greiddi 600 millj. dollara lán með litlum fyrirvara. Halldór Ásgrímsson tjáði Davíð Oddssyni, samkvæmt frásögn Styrmis, að bankarnir þrír færu fram á verulega aðstoð ríkisins af þessum sökum og þeir óttuðust að daginn eftir, á mánudegi, yrði fleiri skammtímalánum sagt upp eða þau ekki endurnýjuð. Frá því segir í bókinni að Davíð Oddsson hafi kallað saman neyðarfund seðlabankastjóranna þriggja með bankastjórum viðskiptabankanna á heimili sínu sunnudagskvöldið 26. mars til að ræða þessa alvarlegu stöðu. Síðan segir í bókinni, á bls. 75, með leyfi forseta:

„Bankastjórarnir óttuðust að daginn eftir, mánudaginn 27. mars, yrði slíkum lánum ýmist sagt upp eða þau ekki endurnýjuð og bankarnir mundu samstundis hrynja. Niðurstaða fundarins var sú að gera ekkert fyrir mánudagsmorgun en taka á vandanum ef hann kæmi upp. Þann dag gerðist ekkert.“

Stjórnvöld fóru aftur að sofa. Þau gripu ekki til aðgerða til að verja almenning fyrir hugsanlegu hruni bankakerfisins þó að þessi atburður hefði átt að færa ráðamönnum heim sanninn um að bankakerfið á Íslandi var komið fram á brún hengiflugsins og afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar fyrir almenning. Það sem meira var, vitneskjunni um hættuástandið í bankakerfinu var haldið kirfilega leyndri fyrir fulltrúum þjóðarinnar á þingi og fyrir þjóðinni. Þöggunin tók yfirhöndina og meðvirknin með bankakerfi sem ekki hafði efni á því að sannleikurinn um veikburða stoðir þess yrðu lýðum og fjármálamörkuðum ljósar tók yfir. Látum vera að það hafi ekki verið hrópað á torgum að bankakerfið væri dauðadæmt. Fyrir því voru svo sem skiljanlegar ástæður. En að stjórnkerfið væri ekki sett á hæsta viðbúnaðarstig og mótuð stefna með skýrri aðgerðaáætlun og eftirfylgni með framkvæmd hennar er óskiljanlegt og eftir á að hyggja ófyrirgefanlegt.

Það er svo grátleg kaldhæðni örlaganna að þegar kom að myndun nýrrar ríkisstjórnar vorið 2006 gekk Samfylkingin inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og engar upplýsingar lágu fyrir við þá stjórnarmyndun um þá tímasprengju sem taldi niður hægt og örugglega í bankakerfinu. Þöggunin og meðvirknin hélt áfram í stjórnkerfinu og tækifærið til að bjarga samfélaginu frá dauðadæmdu bankakerfi rann mönnum úr greipum.

Þöggun og meðvirkni, leyndarhyggja og kjarkleysi. Þessi hugtök bergmála þegar litið er yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndar Alþingis og þetta er því miður lýsing á stjórnmálasögu síðustu ára og áratuga á Íslandi. Það er niðurstaða þingmannanefndarinnar að taka beri alvarlega gagnrýni sem kom fram í umfjöllun vinnuhóps um siðferði á íslenska stjórnmálamenningu og draga verði lærdóm af henni.

Sjónum verður að vonum beint að umræðum á Alþingi. Þær hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og efla þarf góða rökræðusiði í þessari stofnun. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta. Allt er þetta satt og rétt en rót vandans liggur dýpra. Hún liggur í þeirri stjórnmálamenningu sem þróast hefur í landinu þar sem rógburður, óheilindi, bræðravíg og fylkingamyndanir innan flokka hafa þrifist. Enginn flokkur á Íslandi hefur farið varhluta af þessari þróun, ég leyfi mér að fullyrða það. Dæmin eru fjöldamörg. Átök Davíðs Oddssonar og Þorsteins Pálssonar í Sjálfstæðisflokknum, Jóns Baldvins og Jóhönnu í Alþýðuflokknum, Ólafs Ragnars og Svavars í Alþýðubandalaginu, Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar í Framsóknarflokknum, Össurar og Ingibjargar Sólrúnar í Samfylkingunni, Þráins Bertelssonar og annarra þingmanna í Borgarahreyfingunni að ekki sé minnst á alla þá flokksmenn sem hafa skipað sér í sveitir á bak þeim foringjum sem hér voru nefndir gegn öðrum félögum sínum í viðkomandi flokkum.

Ég nefni þessa stjórnmálaforingja í því samhengi að rannsóknarnefnd Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að eitt helsta einkenni stjórnmálamenningar á Íslandi sé foringjaræðið, að foringjar eða oddvitar flokkanna leiki lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður sé atkvæðalítill. Það fyrirkomulag er varasamt út frá sjónarmiðum virks lýðræðis en það er beinlínis hættulegt þegar stjórnmálamenningin er jafnvarasöm og ég hef lýst að ofan eða eins og segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, með leyfi forseta: „Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir.“ Þessi átök og hjaðningavíg innan flokka og milli flokka einkenndu íslensk stjórnmál gjörvalla 20. öldina og þeir stjórnmálamenn sem stjórnað hafa landinu á undanförnum áratugum eru hertir í þessum eldi ófriðar og átaka.

Ég tek heils hugar undir niðurlagið í kafla þingmannanefndarinnar um störf Alþingis þar sem segir, með leyfi forseta: „Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Virðulegi forseti. Við eigum að sýna hugrekki í störfum okkar á Alþingi. Einar Benediktsson, ekki hinn herðabreiði skáldjöfur aldamótakynslóðarinnar, nei, Einar Örn Benediktsson, frumkvöðull pönkkynslóðarinnar á Íslandi, söng, ef hægt er að kalla það söng, einhverju sinni, með leyfi forseta: „Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir.“ Ég vil gera þessi orð pönkarans að mínum. Hann er reyndar réttkjörinn borgarfulltrúi í dag sem sýnir okkur að enn er von með íslensk stjórnmál. Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir.

Af hverju er ég að vitna í þessi orð í umræðum um skýrslu þingmannanefndar Alþingis? Því þau tala inn í þau orð sem koma fram í skýrslunni um að alþingismönnum beri að sýna hugrekki í störfum sínum og endurheimta traust með orðum sínum og athöfnum. Ég legg áherslu á athafnir. Það er ekki nóg að mæla fögur orð af munni, hafa fallega stefnuskrá og sýnast vera einlægur. Við verðum að sýna það í verki að okkur sé alvara þegar við tölum um háleitar hugsjónir eins og traust, heilindi og siðferði.

Við þingmenn Alþingis berum ábyrgð á því að viðhalda eða breyta stjórnmálamenningunni í landinu. Við veljum það hvert og eitt hvort við göngum til liðs við átakamenninguna, bakstungurnar og bræðravígin — og ég verð að leggja áherslu á að þar er enginn stikkfrí. Við veljum nefnilega líka með aðgerðaleysinu, líka með því að þegja, með því að loka augunum og sýna meðvirkni. Það er einungis með því að skora ónýta stjórnmálamenningu á hólm og breyta henni í verki sem við stöndum undir nafni sem þjónar almannahagsmuna.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og ályktanir þingmannanefndar í þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar á að vera okkur innblástur til að taka afstöðu til þess hvort við viljum ganga í björg átaka stjórnmálanna eða taka höndum saman um að breyta stjórnmálamenningunni innan frá. Hér gegnum við nefnilega sérstöku sögulegu hlutverki og við þurfum að taka afstöðu hvert og eitt okkar og sem þingheimur. Það gerir það enginn fyrir okkur.