145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

viðvera stjórnar og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Virðingarleysið gagnvart forseta Alþingis er algert hjá hans eigin flokki. Virðingarleysi formanns Sjálfstæðisflokksins og varaformanns hans er algert gagnvart þinginu og almenningi í landinu. Virðingarleysi Framsóknarflokksins gagnvart þinginu er algert, því að ekki hef ég heyrt núverandi forsætisráðherra og nýkjörinn formann flokksins tala um hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi.

Við erum búin að gera það sem við áttum að gera á þessu þingi, sem var afnám hafta, og nú getum við farið heim, virðulegi forseti. Það er ekkert annað sem þarf að afgreiða á þessu þingi því að það stóð aldrei til að afgreiða nein önnur mál. Við höfum leyft ríkisstjórninni að taka í gegn öll þau mál sem hún hefur getað klárað en það er stjórnarandstaða í ríkisstjórninni og það er bara þannig, forseti. Því fyrr sem þið viðurkennið það, þeim mun betra.