139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[13:57]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem við stöndum frammi fyrir í dag er bútasaumur þar sem þýðingarmikla skika vantar í heildarmyndina. Það sem þarf í svo afdrifaríku máli er heildstæð nálgun sem tekur á öllum þáttum vatns, endurskoða þarf alla löggjöf sem snýr að eignarrétti og afnotum á vatni og endurspeglar fjölþætt hlutverk nútímalegrar vatnalöggjafar sem tengist nýtingu vatns. Taka þarf upp lögin frá 1998 þar sem grunnvatn var illu heilli einkavætt en enn hefur drykkjarvatn landsmanna ekki verið losað undan eignarrétti landeigenda. Auk þess er að finna varasamar lagagreinar í frumvarpinu, m.a. 9. gr. sem er heimildarákvæði til að framselja vatnsréttindi í 65 ár. Einnig er ýmislegt sem lýtur að stjórnsýslunni sem þyrfti að skoða betur.

Í ljósi þessa tel ég heillavænlegra að framlengja frestun á gildistöku hinna umdeildu vatnalaga frá 2006, eins og áður hefur verið gert, og vinda okkur í vinnu þar sem við endurskoðum á heildstæðan og róttækan hátt alla okkar löggjöf um vatn.

Ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.