145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Beiðnin um þessa sérstöku umræðu snýr almennt að málshraða við lagasetningu, fyrri spurningar þingmannsins beindust að því og ég mun því svara út frá því.

Forsætisráðuneytið hefur haft forustu um það innan Stjórnarráðsins undanfarin ár að bæta undirbúning löggjafar. Kveikjan að því starfi var m.a. fordæmi frá öðrum ríkjum um að nálgast slíkt gæðastarf með kerfisbundnum hætti þar sem eitt miðlægt ráðuneyti hefði forustu. Gefin var þess vegna út handbók árið 2007 um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa í samstarfi við skrifstofu þingsins. Skrifstofa löggjafarmála var sett á fót 2009 sem les yfir stjórnarfrumvörp áður en þau eru lögð fram í ríkisstjórn og tekin hefur verið upp samræmd kaflaskipting í greinargerðum með frumvörpum sem stuðlar að því að ætíð sé fjallað um mat á áhrifum, samráð og samræmi við stjórnarskrá, svo dæmi séu tekin. Jafnframt hefur verið gripið til aðgerða til að bæta skipulag löggjafarvinnunnar, t.d. með því að fylgjast betur með afrakstri þingmálaskrár og með námskeiðum, m.a. um verkefnastjórnun. Ráðuneytið hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, bæði á vettvangi OECD, Evrópusambandsins og Norðurlanda.

Það er mikil áskorun fyrir okkur Íslendinga að viðhalda löggjöf sem er að umfangi sambærileg við það sem gerist hjá mun stærri þjóðum með stærri stjórnsýslu en tryggja um leið skýrleika og gæði að öðru leyti. Örar þjóðfélagsbreytingar og kröfur alþjóðasamstarfs kalla á sífellda endurskoðun löggjafar. Á sama tíma höfum við þurft að greiða úr flóknum viðfangsefnum í kjölfar efnahagshrunsins, oft og tíðum við pólitískt erfiðar aðstæður.

Ástæðan fyrir því að þessi málefni eru nú gerð að umtalsefni er væntanlega sú að síðustu vikur hefur ríkisstjórnin lagt fram mörg stór þingmál. Skýringin er einföld, mörg þessara mála hafa verið árum saman í undirbúningi, eins og almannatryggingar, og þegar búið er að ákveða að stytta kjörtímabilið er eðlilegt að ráðherrar í ríkisstjórninni vilji nýta þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í málin og koma henni á framfæri við Alþingi, í einstaka tilvikum með tiltölulega stuttum fyrirvara eins og gefur að skilja með það fyrir augum að lagafrumvörpin yrðu afgreidd frá þinginu.

Ég hygg að flestir sem kynna sér tilurð laga hér á landi mundu taka undir að lengi mætti gott bæta. Við vildum gjarnan hafa meiri tíma og mannafla til samráðs og mats á áhrifum lagafrumvarpa áður en þau eru lögð fram og við vildum gjarnan geta fullvissað okkur betur um það í sumum tilvikum hvort kröfur stjórnarskrár og alþjóðasáttmála séu uppfylltar. Stundum verður hins vegar hreinlega að taka af skarið og láta gott heita í þeirri trú að ekki verði betur gert miðað við tíma og mannafla sem er til ráðstöfunar og í ljósi þess að stjórnvöld geta ekki setið aðgerðalaus þegar málefni kalla á úrlausn. Það hefur auðvitað verið rætt um að það er rétt sem kom fram hjá þingmanni, málum er oft mun meira breytt í þinginu, en það hefur líka verið tekið sem dæmi um að hér sé meira lýðræði í gangi, að þingið hafi meiri aðkomu að löggjöfinni en framkvæmdarvaldið eitt og sér.

Hitt er svo annað mál að vel kann að vera að við getum skoðað betur hvort lög og reglur séu endilega svarið við úrlausnum samtímans. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það sé ekki spurning um fjölda laga sem hvert þing setur heldur gæði þeirra hvernig árangurinn er.

Ef ég má draga saman nú í lok kjörtímabils atriði sem forsætisráðuneytið lítur á sem forgangsmál á þessu sviði á næstunni er það helst að áður en byrjað sé að semja lagafrumvörp greini ráðuneytið betur valkosti til að bregðast við úrlausnarefninu og kynni niðurstöður þeirrar greiningar fyrir öðrum ráðuneytum, hagsmunaaðilum, almenningi og þingnefndum. Þannig væri hægt að leggja betri grunn að stefnumótun og afstýra óþarfavinnu. Það þarf líka að efla getu Stjórnarráðsins til að meta áhrif lagafrumvarpa, ekki einungis á ríkissjóð heldur einnig á atvinnulífið, borgarana og mikilvæga hagsmuni eins og jafnrétti kynja og umhverfismál. Er þessi áhersla í takt við ný lög um opinber fjármál.

Það þarf einnig að fylgjast betur með framkvæmd laganna og því hvort þau ná tilætluðum markmiðum. Hér gætu þingið og þingnefndir lagt lið. Að mati OECD er þessi þáttur löggjafar og lagaframkvæmdar sá sem er helst vanræktur í aðildarríkjunum, þar með talið Íslandi. Of mikil áhersla er sem sagt lögð á að samþykkja nýjar reglur en minni á hvort þær sem samþykktar hafi verið virka eins og að var stefnt. Einnig þarf að skoða hvort virkja megi gæðaeftirlit á undirbúningsstigi eða við þinglega meðferð með aðkomu óháðra sérfræðinga. Aftur og aftur rísa t.d. deilur um hvort lagafrumvörp standist stjórnarskrá, en við höfum engin úrræði sem sátt er um til að fá úr því skorið fyrr en þá mögulega reynir á lög í dómsmálum sem getur verið löngu eftir samþykkt þeirra. Í mörgum tilvikum leita menn því til óháðra sérfræðinga á skrifstofum úti í bæ en það má líka taka undir með hv. þingmanni, og ég gleðst yfir því að það sé gert með svo skýrum hætti, að hugmyndir hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að efla lagaskrifstofu Alþingis samhliða til að sinna þessum þætti gætu líka verið leið sem við þurfum að skoða.

Að lokum þarf að þróa mælikvarða á gæði löggjafar til að skapa forsendur fyrir því að fylgjast með hvort þróun sé í rétta átt. Örar breytingar á sömu lögum eða dómar og álit umboðsmanns Alþingis um meinbugi á lögum (Forseti hringir.) gætu t.d. verið slíkir mælikvarðar.