145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að viðurkenna að bæði þau svör sem ég fékk áðan og þessi hérna gera mig áhyggjufulla varðandi vinnslu á þessu frumvarpi. Verið er að hækka skerðingarhlutfall um rúm 4%. Hafa verið gerðar einhverjar sviðsmyndagreiningar þegar kemur að þessu? Er hægt að nálgast þær einhvers staðar sem fylgiskjöl til þess að geta áttað sig betur á því hver raunveruleg áhrif frumvarpsins verða? Ég sé ekki betur en að markmið frumvarpsins sé að einfalda bótakerfið. Hérna stendur: „Einföldun bótakerfisins, breyttur lífeyristökualdur og fleira.“ Það er nafnið á frumvarpinu. Er virkilega verið að einfalda kerfið þegar við erum að hækka einn bótaflokk sem skerðist síðan meira? Ég veit ekki alveg hvert markmiðið þarna er.

Ég skil vel að það kosti meira að búa einn þannig að ég er ekkert á móti því að sá bótaflokkur hækki. En er ekki skynsamlegra að afnema skerðingarnar? Eða gera það mun erfiðara að ná upp í skerðingarhlutfallið? Fólk þarf að eiga í sig og á. Ellilífeyrisþegar eru ekki endilega mjög tekjuhár hópur. Það kom fram í andsvari áðan að þeir séu líklegri til að eiga digra sjóði og þar fram eftir götunum eða maka og ég veit ekki hvað, sem gæti mögulega hjálpað þeim með tekjur. En ég þigg til dæmis ekki lægri laun sem þingmaður út af því að ég er í sambandi. Af hverju eiga öryrkjar og ellilífeyrisþegar að þiggja lægri laun út af því að þeir eru í sambúð? Ég á rosalega erfitt með að skilja þetta, ég verð bara að viðurkenna það.